140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:57]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það líka með hv. þingmanni að auðvitað amast maður ekki við því að ríkisstjórn leggi í upphafi kjörtímabils fram þau mál sem hún vill leggja áherslu á og eitt af því gæti verið skipulag Stjórnarráðsins. Það er dálítið annað að leggja það fram í upphafi kjörtímabils sem lið í þeim umbótum sem sú ríkisstjórn vill kannski koma með á kjörtímabilinu en fara að hræra í þessu örfáum mánuðum fyrir kosningar. Það er augljóst að þessar breytingar munu ekki ná tilgangi sínum eins og ríkisstjórnin ætlast til á þeim tímapunkti sem lagt er til. (ÁJ: … aftur.) Svo kemur það — næsta ríkisstjórn vill eflaust gera breytingar í upphafi kjörtímabils síns.

Síðan kemur að því hvort ríkisstjórnin hafi meiri hluta fyrir þessu máli. Hæstv. forsætisráðherra segir gjarnan að ríkisstjórnin hafi meiri hluta í landinu til að koma málum í gegn. Hefur hún meiri hluta í þessu máli? Það liggur ekkert fyrir um það. Hvert er þá svar hæstv. forsætisráðherra? Við þurfum að athuga það og kalla fram meirihlutavilja þingsins í málinu. Það er sem sagt þannig, eins og ég gat um í ræðu minni, að ríkisstjórnin ætlar að láta þingið sjá um það í atkvæðagreiðslu með hvert málið á fætur öðru að kanna hvort ríkisstjórnin hafi meiri hluta. Það er orðið verkefni okkar í atkvæðagreiðslu að kalla fram ríkisstjórnarmeirihlutann og þá sjáum við hverjir eru í ríkisstjórnarmeirihluta á hverjum tíma fyrir sig. Í þessu máli virðist einsýnt að þingmenn Hreyfingarinnar tilheyra ríkisstjórnarmeirihlutanum. Svo virðist einnig vera í stjórnlagaráðsmálinu. Síðan getur verið eitthvert annað mál þar sem ríkisstjórnin er með allt öðruvísi meiri hluta.

Það hefur blasað við missirum saman að hér starfar minnihlutastjórn. Það blasir við öllum, þjóðinni og ég býst við að það blasi við meiri hluta þingmanna, en það er algerlega útilokað að hæstv. forsætisráðherra vilji átta sig á því.