140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:08]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir athyglisverða spurningu. Þetta hef ég verið að benda á í dag og óttast þetta, en ég minni jafnframt þingmanninn á að nú er minna en ár til kosninga þannig að við fáum vonandi nýja ríkisstjórn innan skamms sem hefur aðrar áherslur en þær að rífa niður atvinnulífið. Eins og ríkisstjórnin er knúin áfram í dag er þetta akkúrat lýsingin, að náttúran njóti meiri réttar en við sem búum í þessu landi. Hér eru allar framkvæmdir stöðvaðar vegna þess að Vinstri grænir eru í ríkisstjórn og þeir hafa til dæmis haft það á stefnuskrá sinni að vernda neðri hluta Þjórsár, það skýrist m.a. í rammaáætluninni, þannig að hér er allt stopp.

Mig langar að útskýra það sem ég talaði um í minni stuttu ræðu áðan, nú er ég farin að hafa svo lítinn tíma í ræðum, hvað ég óttast varðandi það að hafa eitt umhverfis- og auðlindaráðuneyti vegna þeirra Evrópureglna sem umhverfisráðuneytið er keyrt á. Í umhverfisráðuneytinu eru 33 starfsmenn. Í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, okkar mikilvægasta ráðuneyti í dag, er 41 starfsmaður. Ef við skoðum undirstofnanirnar sem þessum ráðuneytum fylgja heyra 467 starfsmenn undir stofnanir umhverfisráðuneytisins en það eru bara 445 starfsmenn sem tilheyra undirstofnunum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Þarna sér maður hvílíkt vægi umhverfismálin hafa í Evrópusambandinu, og þær reglur sem lúta að þeim þurfum við að innleiða hér á landi vegna veru okkar í EES. Þess vegna óttast ég svo mjög að þegar auðlindamálin eru komin þarna inn líka (Forseti hringir.) tútni þetta út og falli í sama horf og í Evrópusambandinu, því að undir umhverfisráðuneytinu (Forseti hringir.) eru stofnanir sem geta tekið við auðlindamálunum.