140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:12]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki alveg við hvað frú forseti á þegar hún biður þingmenn um að gæta orða sinna um þá sem eru fjarstaddir. Það eru kannski svartfuglarnir sem hv. þingmaður minntist á, ég veit það ekki, eða hvalirnir? Líta umhverfisverndarsinnar ekki á hvali nánast eins og mannskepnur? Mig minnir að ég hafi heyrt það einhvern tíma.

Þetta er athyglisverð umræða sem fer hér fram vegna þess, eins og þingmaðurinn fór yfir, lítum við Íslendingar á hvali, svartfugla og jafnvel ref til náttúruauðlinda en nýting þessara stofna er alveg bönnuð innan Evrópusambandsins og þeir friðaðir. Nú er verið að taka upp í lög friðun hér á landi varðandi til dæmis þessa stofna, og með því að hafa umhverfis- og auðlindamál undir einum hatti má jafnvel rýmka um og greiða fyrir Evrópusambandsaðlögunarferlinu með því að hafa þetta þar inni, því að eins og þingmaðurinn fór svo vel yfir er hárfín lína á milli þess hvort auðlindir eigi að vera umhverfismál eða nýtingarmál. Skilningur milli manna getur meira að segja verið mismunandi, hvað þá í stefnu heils ráðuneytis. Það liggur klárt fyrir að verið er að setja þessi mál saman í eitt til að hafa óljósa línu þar á milli.

Ég nefni til dæmis það sem kom fram í máli hv. þm. Jóns Bjarnasonar, sem þekkir sjávarútvegsmálin mjög vel sem fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Hann sagði í dag að ekki yrði haldið áfram með sjávarútvegskaflann fyrr en búið væri að leggja bann á Íslendinga varðandi hvalveiðar og Íslendingar væru búnir að gangast undir það að hætta hvalveiðum. En með því að hafa hvalveiðimálin inni í sameinuðu umhverfis- og auðlindaráðuneyti væri kannski hægt að líta örlítið fram hjá því og í stað þess (Forseti hringir.) að við séum að stunda hvalveiðar í ábataskyni væri kannski hægt að breyta þeim (Forseti hringir.) með tilliti til umhverfissjónarmiða, rannsókna eða eitthvað slíkt.