140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:21]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að klára andsvarið frá því áðan. Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir spurði mig út í þessar umsagnir og hver rökin væru fyrir því að stofna þetta umhverfis- og auðlindaráðuneyti en ríkisstjórnin verður náttúrlega að svara fyrir það, ekki ég. En til marks um það hve jákvæðum augum umhverfissinnar líta þetta þá koma bara jákvæðar athugasemdir frá slíkum samtökum.

Ég minni á að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, sem tilheyrir hinum últragræna armi Vinstri grænna, lýsti yfir mikilli ánægju í þingræðu í gær með að loksins væru Vinstri grænir búnir að efna það kosningaloforð sitt að stofna sameiginlegt auðlinda- og umhverfisráðuneyti. Við vitum því alveg hvert Vinstri grænir eru að fara með því að sameina ráðuneyti og stofna þetta ráðuneyti, það er sem sagt vegna ESB-umsóknarinnar.

Varðandi spurninguna í seinna andsvari var það alveg hreint dæmalaust að verða vitni að vinnubrögðum hæstv. forsætisráðherra í þinginu í dag og í gær þar sem hún kom hálfskælandi upp í ræðustól og kvartaði yfir óbilgirni stjórnarandstöðunnar, þ.e. þeirra flokka sem ekki hafa gengið ríkisstjórninni á hönd og eru án ráðuneytis — þá er ég að vísa í Hreyfinguna — og kvartaði yfir því að við tölum mikið, forsætisráðherrann sem á hér ræðumet, talaði í rúmar ellefu klukkustundir þegar hún var í stjórnarandstöðu. Eins og þingmaðurinn fór yfir eru það alveg galin rök hjá hæstv. forsætisráðherra að hér áður hafi viðgengist slæm vinnubrögð og það réttlæti slæleg vinnubrögð þessarar ríkisstjórnar. Nú er árið 2012. Við erum að komast í gegnum erfiða tíma og það á bara að halda áfram gömlum vinnubrögðum (Forseti hringir.) sem þeir flokkar sem mynda núverandi minnihlutastjórn hér á þingi gagnrýndu (Forseti hringir.) svo mjög þegar þeir voru í stjórnarandstöðu. Þetta er alveg fáránlegt.