140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Umræðan í dag um hádegisbilið um að þingfundur stæði lengur en venja er til var mjög dapurleg. Ég tók ekki þátt i henni, ég hlustaði á hana og það var eiginlega ekki þægilegt áheyrnar að hlusta á það. Mér finnst eins og þetta sé meira spurning um sálfræði en skynsemi, þetta sé meira spurning um að ráða en ekki að kunna að miðla málum eða vinna saman.

Ég hefði gjarnan viljað ræða ítarlega þau mál og vísa þeim til nefndar. Hins vegar mundi ég ekki lofa því að yfir sum þessara mála, eins og réttindagæslu fyrir fatlað fólk, vilji ég hlaupa á hundavaði. Ég mundi vilja ræða það ítarlega vegna þess að umræða á Alþingi hefur ákveðinn tilgang. Hún hefur þann tilgang að ná í rök og gagnrök, kosti og galla ákveðinna ákvæða, og oft hafa mál batnað mikið í umræðunni, til þess er umræðan. En ég hefði endilega viljað fá þessi mál og þá nefni ég kannski sérstaklega réttindagæslu fyrir fatlað fólk og atvinnutengda starfsendurhæfingu þar sem við ætlum að reyna að koma á kerfi sem endurhæfir öryrkja og veitir ekki af. Ég skil ekki af hverju þetta gerðist, ég skil ekki af hverju þessu var hafnað vegna þess að það hefði í rauninni ekkert breyst nema þessi mál hefðu farið til nefndar og nefndirnar hefðu getað unnið í næstu viku sem þær gera væntanlega ekki. En þetta er einhver kergja eða ég veit ekki hvað á að segja, vanmáttur til að vinna með öðru fólki, taka tillit til óska og bakka með sum mál. Ég held að þetta sé eitthvað slíkt, þetta er sálfræði.