140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:39]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það og það er mikilvægt og það var ekki fólgið í því tilboði sem við þingflokksformenn gerðum í dag til að koma málum áfram að þau færu órædd til nefndar. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er mjög mikilvægt að einmitt 1. umr. sé notuð til að koma fram með ólík sjónarmið, jafnvel þingmanna sem ekki sitja í viðkomandi fagnefnd, til að nefndin geti síðan farið yfir þau og metið þau, beint spurningum til viðkomandi ráðherra ef ráðherrar leggja fram mál til að fá frekari skýringar og hugsanlega mótrök eins og hv. þingmaður nefndi. Ég held að það væri mjög mikilvægt.

Kannski hitti þingmaðurinn naglann á höfuðið þegar hann talaði um að þetta væri ákveðin þrjóska, þvermóðska, og þörf til að sýna vald sitt. Þá langar mig til að vitna í skýrslu þingmannanefndarinnar þar sem fjallað er um stjórnsýsluna sem fékk mikinn áfellisdóm eins og þingmaðurinn kom inn á í ræðu sinni. Þar er sagt, með leyfi forseta:

„Oddvitaræðið og verklag þess sem tíðkast hefur í íslenskum stjórnmálum undanfarna áratugi dregur úr samábyrgð, veikir fagráðherra og Alþingi og dæmi eru um að mikilvægar ákvarðanir hafi verið teknar án umræðna í ríkisstjórn. Slíkt verklag er óásættanlegt.“

Af því að hér hefur mikið verið rætt um að við séum að taka upp ný vinnubrögð eftir kosningarnar 2009 og nauðsyn sé á endurskoðun og endurnýjun, er það ekki mat þingmannsins, og það er kannski dálítið leiðandi spurning, að það hafi lítið breyst, að hæstv. forsætisráðherra sé í þessu máli að reyna að sýna hver valdið hafi og hver stjórni Alþingi? Er þetta ekki dæmi um það? Til hvers erum við að fara í allar þessar breytingar undir þeim merkjum að hér sé verið að breyta (Forseti hringir.) öllu í rétta átt með því að fækka ráðuneytum og stokka upp og færa stofnanir til og frá (Forseti hringir.) ef ekkert hefur breyst í raun?