140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:41]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Nú er ég eðli máls samkvæmt ekki hlutlaus í þessu máli þannig að það er dálítið erfitt fyrir mig að dæma um hvort foringjaræðið hafi aukist eða minnkað. Mér finnst það hafa stóraukist og ég vildi gjarnan að hæstv. ráðherrar og sérstaklega þeir sem leiða ríkisstjórnina horfi í eigin barm og skoði hvort hér sé í gangi foringjaræði. Ég ætla ekki að segja hvernig það er að veita ríkisstjórn forstöðu, að vera forsætisráðherra í ríkisstjórn sem er í rauninni að falla í hverri viku. Ég man ekki eftir einni einustu viku þar sem núverandi ríkisstjórn er ekki að falla nema það var eitthvert þriggja mánaða hlé í sumar en að öðru leyti er hún alltaf að falla. Það er alltaf verið að ræða um að ríkisstjórnin eigi að segja af sér og hætta.

Ég hugsa að það sé mjög erfitt til lengdar að starfa og stýra slíkri ríkisstjórn þannig að hæstv. forsætisráðherra á á vissan hátt samúð mína í því og að þurfa að kaupa til fylgis fólk til að ná fram vissum málum og verða að ná fram vissum málum. Eins og ég gat um verður ríkisstjórnin hugsanlega að ná þessu máli fram um auðlindaráðuneytið vegna þess að Vinstri grænir, þ.e. þeir sem eru grænir í þeim samtökum, krefjist þess að hér verði auðlindaráðuneyti og það verði flutt til umhverfisráðuneytisins þannig að hér verði hætt að virkja, hætt að veiða hval o.s.frv. og þess vegna verði ríkisstjórnin að ná því fram til að friða þann hóp. Þetta er eflaust mjög erfiður línudans og ég hugsa að það sé ekki auðvelt að stjórna við þessar aðstæður.