140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:55]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ítreka þá beiðni sem komið hefur fram hjá nokkrum þingmönnum um að fá skýr svör við því hvort forseti hyggst hafa fund fram eftir nóttu.

Þetta er annað kvöldið í röð sem við förum fram yfir miðnætti og fundur hefst hálfníu í fyrramálið í atvinnuveganefnd sem hefur loksins ærinn starfa eins og menn þekkja eftir páskahléið. Við erum búin að taka á móti Evrópuþingmönnum bæði í dag og í kvöld og höfum þar af leiðandi ekki haft mikinn tíma til að undirbúa okkur fyrir morgundaginn. Það væri æskilegt að fá skýr svör um það hvenær tími væri til þess því að við sem höfum áhuga á að taka til máls í þessu máli erum auðvitað bundin yfir því.

Ég held að það sé ekki óeðlileg krafa að við fáum að heyra það heldur skýrar (Forseti hringir.) en forseti hefur tilkynnt til þessa hvenær þingfundi lýkur (Forseti hringir.) í nótt svo að við getum kannski lesið eins og eitt, tvö blöð fyrir fundinn í fyrramálið.