140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:57]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það virðist vera orðið nýmæli á forsetastól að koma með skýringar á tímamælingum sem enginn skilur. Í gær vorum við að velta fyrir okkur hvað orðið miðnótt þýddi, hvort það væri miðnætti eða mið nótt og það skýrðist þegar hæstv. forseti sleit fundi um klukkan hálfeitt þannig að miðnótt er væntanlega miðnætti eða upp úr því.

„Eitthvað verður haldið áfram“ er svarið í dag og við þurfum að biðja hæstv. forseta í allri vinsemd um að skýra það betur. Við erum búin að tala mikið um brag þingsins og ef við ætlum að hafa það yfirbragð á þingstörfunum að hér sé fundað fram á nótt kvöld eftir kvöld (Forseti hringir.) og nefndafundum haldið til streitu þá er ég ekki viss um að það (Forseti hringir.) hafi góð áhrif á þann brag sem ég er að tala um, frú forseti, (Forseti hringir.) þannig að ég óska eftir svörum.