140. löggjafarþing — 94. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[00:10]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Nú er klukkan farin að skríða yfir á næsta dag og eðlilegt að þingmenn beini þeirri spurningu til hæstv. forseta hversu lengi þingfundur muni standa. Það er rétt sem fram kom í máli hv. þm. Björns Vals Gíslasonar að umræðan í kvöld hefur verið góð og djúp um þetta mál og verður það eflaust áfram, en frú forseti, það geta varla talist eðlileg vinnubrögð að fundur standi langt inn í nóttina. Hér á þingi starfar margt fólk sem þarf að mæta til vinnu snemma í fyrramálið. Fólk á börn sem það þarf að sinna, þá þarf einhver annar að vera heima og gæta þeirra yfir blánóttina og slíkt þarf að skipuleggja. Því væri ágætt að fá að vita, frú forseti, hversu lengi maður þarf að hafa fólk yfir börnunum sínum heima fyrir meðan maður er í þinginu.

Síðan langar mig einfaldlega að benda öllum þingmönnum á að við hljótum að ætla að bæta vinnubrögðin til framtíðar þannig að við séum ekki hér (Forseti hringir.) í einhverri störukeppni fram eftir nótt. Menn hljóta að vilja setjast niður og ræða málin af skynsemi en ekki af hroka.