140. löggjafarþing — 94. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[00:16]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það er ljóst að stjórnarandstaðan á Alþingi hefur ákveðið að taka þetta mál og gera það að sínu forgangsmáli og er eins og ég sagði áðan búin að ræða það hér í 31 klukkustund, halda um það um það bil 60 ræður og hótar því að halda áfram og var ekki fús eða tilbúin til að semja um lyktir þess í dag eða endi. Ef ég væri forseti þingsins — sem ég er ekki sem betur fer, ég held að það sé ekkert sérstaklega skemmtilegt — mundi ég ákveða og tilkynna þingmönnum það að hér verði rætt um þetta mál að þeirra eigin ósk, stjórnarandstöðunnar, fram eftir nóttu og fram undir morgun ef því er að skipta. Þingmenn fengju þannig að ræða um þetta mál eins og þeir óska eftir og krefjast og neita að semja um annað við stjórnarliða varðandi þetta mál. Þeir fengju þeirri þörf sinni fullnægt um að taka þetta forgangsmál sitt til rækilegrar umræðu og eiga, eins og ég sagði áðan, örugglega (Forseti hringir.) mikið eftir órætt í því enn þá. (Gripið fram í.)