140. löggjafarþing — 94. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[00:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Mig langar til að spyrja um það mál sem við erum að ræða hérna, hvenær því eigi að ljúka eða umræðunni að ljúka, hvort henni verði frestað og önnur mál tekin fyrir eða fundi slitið. Ég er þannig gerður að ég vil helst vita hlutina. Mér þótti mjög slæmt í gær þegar ég var að undirbúa mig undir ræðu og var búinn að stilla mig inn á hana andlega að allt í einu var klippt á umræðuna. Það þótti mér ekki gott, frú forseti.

Auk þess vil ég að hæstv. forsætisráðherra sé viðstödd umræðuna vegna þess að þetta skiptir hana miklu máli. Ég ætla ekki að tala um fjölskylduvæna … (Gripið fram í: Jú.) Nei, ég ætla ekki að tala um fjölskylduvæna stefnu hæstv. forseta Alþingis sem hefur beðið mikið skipbrot og er orðin aðhlátursefni um allar jarðir á YouTube.