140. löggjafarþing — 94. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[00:19]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að ég skil að nokkru leyti tilmæli hv. þm. Björns Vals Gíslasonar um að það eigi bara að tala hér þangað til mælendaskráin er búin. (Gripið fram í: … nefndafundir …) Ég er nú ekki viss um að hún verði búin áður en nefndafundir byrja í fyrramálið en ég held að það séu hin líkamlegu og andlegu takmörk sem takmarka okkur í því að geta verið kvöld eftir kvöld í 20 tíma. Það er eiginlega það sem takmarkar þetta þannig að ég mælist til þess að þetta sé gert á skikkanlegum tíma. Mér finnst allt í lagi að vinna 15 tíma á dag en eftir það, jú, jú, ég get alveg gert það dag og dag en ef ég geri það viku eftir viku fara (Forseti hringir.) hlutirnir að renna saman. Þess vegna mundi ég mælast til þess við forseta að hún beiti sér fyrir því að við förum að ljúka þessum fundi. (Forseti hringir.) Það eru flestir búnir að vinna hér síðan klukkan níu í morgun og þetta fer bara að verða (Forseti hringir.) ágætt í kvöld, held ég.