140. löggjafarþing — 94. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[00:31]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í upphafi ágætrar ræðu hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar var minnst á dagskrána sem liggur fyrir og forgangsröðun ríkisstjórnarinnar sem kemur fram í því að hafa þetta mál á dagskrá þrátt fyrir það samkomulag sem við þingflokksformenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks buðum á fundi fyrr í dag. Þar buðumst við að öllu óbreyttu til að geyma þetta mál til morguns og ræða öll þau fjölmörgu mál sem eru á dagskrá og lúta að breytingum á húsnæðismálum, aðgerðum gegn skipulagðri glæpastarfsemi — síðan tvö mál er snerta skuldsett heimili sem eru komin í skuldaaðlögun og jafnvel fyrir dóm; nauðungarsala, aðför, meðferð einkamála og fjármálafyrirtækja, sem sagt málshöfðunarfrestur og síðan kærufrestur, breyting samnings vegna greiðsluaðlögunar einstaklinga og fleiri góð mál. Þetta samkomulag gekk það langt að þingflokksformenn stjórnarliðanna komu með lista til viðbótar sem við vorum tilbúin til að bæta inn á dagskrána. Síðan kom í ljós að forgangsröðun ríkisstjórnarflokkanna er sú að þeir vilja tala um þetta mál eitt.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvaða forsendur séu fyrir því að setja þetta mál í þennan forgang, hvort hann geti ímyndað sér það. Það er ljóst að með því að breyta kerfi Stjórnarráðsins svona seint á kjörtímabilinu mun ávinningurinn af því ekki nýtast þessari ríkisstjórn — hún mun væntanlega fara frá í fyllingu tímans, í síðasta lagi næsta vor — og næsta ríkisstjórn (Forseti hringir.) mun væntanlega breyta öllu upp á nýtt. Hefði ekki verið skynsamlegra að taka í útrétta hönd okkar þingflokka (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokks og Framsóknar í staðinn fyrir að slá á hana hér í upphafi maímánaðar þegar við (Forseti hringir.) þurfum svo sannarlega að taka höndum saman um að leysa mál ef við ætlum að koma einhverjum þeirra hér í gegn?