140. löggjafarþing — 94. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[00:38]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Ég vil vitna aftur í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar þegar honum þótti kostnaðarmat ekki vera nógu nákvæmt.

Hann sagði, með leyfi forseta:

„Þetta er alveg kostulegt kostnaðarmat á einu máli, sem sagt er skilað auðu. Það er svona tuðað eitthvað um að þetta eigi nú að geta gerst bara allt saman án nokkurs kostnaðar en, jú, það gæti kannski orðið einhver kostnaður vegna biðlauna, starfsmannabreytinga, húsnæðis og annarra slíkra hluta en það verði þá bara að fjalla um það sérstaklega. Ég hélt að fjárlagaskrifstofan ætti að reyna að kostnaðargreina mál þannig að það lægi fyrir eftir því sem nokkur kostur er hvers yrði að vænta í sambandi við útgjöld ríkissjóðs.“

Þetta var skoðun hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar þegar hann var í stjórnarandstöðu. Núna stýrir hann og hvar er kostnaðargreiningin? Hún er engin. Það að segja að kostnaður við húsnæði, sem er minnsti kostnaðurinn af þessu, verði 125–225 millj. kr., er eins og hv. þingmaður vísaði til, eins og að setja puttann upp í loftið.

Ég vek athygli á einu sem fer ekki hátt og það er það að húsnæðiskostnaðurinn, sem er bara minnsti hlutinn, við efnahags- og viðskiptaráðuneytið var 25 milljónir. Sá kostnaður er bara farinn. Af því að menn tala hér um einskiptiskostnað, ja, það var sko aldeilis einskiptiskostnaður, hann var afskrifaður á einu ári eða tveimur.

Virðulegi forseti. Það er sorglegt að á meðan menn eru hér að reyna að kreista út hverja milljón í heilbrigðisstofnanir úti um allt land setja menn hálfan milljarð í húsnæðiskostnaðinn og það er bara ekkert mál í Stjórnarráðinu. Síðan eiga menn eftir að fara í allra handa kostnað við að láta þetta virka allt saman, sem er eitthvað sem liggur ekki fyrir og ekkert hefur verið skoðað (Forseti hringir.) að því er virðist.