140. löggjafarþing — 94. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[00:43]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi kostnaðinn þá er þetta slík sóun að fara út í. Gefum okkur, sem er mun líklegra, að þær kosti extra 250 milljónir húsnæðisbreytingarnar í tengslum við þetta. Við erum að tala um það að rökin fyrir því að leggja niður efnahags- og viðskiptaráðuneytið, samkvæmt þeirra gögnum, hv. þingmanna stjórnarliðsins og hæstv. ríkisstjórnar, eru þau að efnahags- og viðskiptaráðuneytið sé vanbúið, það vanti þangað fólk. Ef það eigi að vera áfram þurfi að setja meiri fjármuni í efnahags- og viðskiptaráðuneytið. Þetta hefur að vísu aldrei komið fram áður og það er stefna ríkisstjórnarinnar að vera með efnahags- og viðskiptaráðuneyti. Til að leysa það ætlar ríkisstjórnin að setja efnahagsmálin í fjármálaráðuneytið. Væntanlega þarf eitthvert fólk að sinna því sem ekki er verið að sinna í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu núna. Og er eitthvert kostnaðarmat á það hvað það kostar að byggja upp í fjármálaráðuneytinu? Nei, ekki neitt. Ef þetta fólk vantaði í efnahags- og viðskiptaráðuneytið er ólíklegt að þar sé einhver hópur fólks, sérfræðingar, sem sé búinn að bíða í mörg ár í fjármálaráðuneytinu eftir þessum verkefnum og hafi bara ekki verið að gera neitt annað fram til þessa. Ég mundi telja að það væri mjög ólíklegt og eiginlega fullkomlega útilokað.

Þetta heitir bara að fara illa með opinbert fé og það er verið að sóa fjármunum. Hv. þingmaður nefndi ýmislegt þarna og mætti nefna fleira eins og landsdóm og annað slíkt sem er fullkomin sóun. Þarna einhvern veginn, í svona verkefni, þá opnast allir vasar. Hingað koma forstöðumenn stofnana, heilbrigðisstarfsmanna, sjúklingafélaga, sem og reyna að berjast fyrir hverri milljón, hverri krónu, og þeim er sagt: Heyrðu, þið verðið að skilja ástandið. (Forseti hringir.) En þegar kemur að dægurverkefnum af þessu tagi þá bara opnast allar flóðgáttir.