140. löggjafarþing — 94. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[01:19]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt að dálítið undarlega var farið með Varnarmálastofnun. Rök voru bæði með og á móti því fyrirkomulagi sem komið var á þegar Varnarmálastofnun var sett á fót á sínum tíma en þegar hún var lögð af þá enduðu þessi mál í tómri upplausn að mínu mati. Hugsanlega hefur rykið eitthvað sest yfir þetta því að verkaskipting er að skýrast en í millitíðinni hefur verið mikið óvissuástand. Ég held að það hafi ekki hjálpað að skipta ábyrgðarsviðinu milli tveggja mismunandi ráðherra og tveggja mismunandi ráðuneyta. Ég held að það sé bagalegt og til skaða.

Ég hef auðvitað áhyggjur af því að það sama muni hljótast af mörgum þeim breytingum sem sagt er frá í þessari tillögu, ýmist skýrt eða með óljósum orðum. Ég held að stjórnkerfið verði í töluverðu uppnámi í (Forseti hringir.) alllangan tíma nái þessar breytingar fram að ganga.