140. löggjafarþing — 94. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[01:41]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Maður getur orðið ansi ringlaður á næturfundum þegar hlustað er á hv. þingmenn, en ég lít svo á, hæstv. forseti, að forseti stjórni fundi og það sé ekki okkar að gefa fyrirskipanir. Mig minnir að hv. þingmaður sem talaði á undan mér hafi tilkynnt það fyrr í kvöld eða nótt undir þessum lið, um fundarstjórn forseta, að forseta bæri að tilkynna okkur þingmönnum að þessum þingfundi yrði haldið áfram fram á morguninn meðan mælendaskrá væri svo löng sem þingmanninum sýndist.

Nú er það svo, frú forseti, að ég tel mjög mikilvægt að við fáum að nota ræðutíma okkar og við þingmenn fáum að segja það sem okkur býr í brjósti um þau mál sem eru til umræðu í þinginu. Það er ágætt að menn séu ekki að fetta fingur út í að við fáum að tala en auðvitað er ekkert vit í því, frú forseti, að halda þingheimi hér við umræður um miðja nótt meðan það liggur ekki einu sinni fyrir hvaða mál eru í forgangi hjá þeim sem stýra því hvaða mál eru sett á forgangslista, þ.e. frá stjórnarflokkunum.