140. löggjafarþing — 94. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[01:47]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég er búinn að fara þess á leit við virðulegan forseta að hann upplýsi hvenær þingfundi mun ljúka og er lítið um svör þannig að ég vildi vekja athygli virðulegs forseta á því að árið 1921 voru samþykkt lög á hv. Alþingi, nánar tiltekið vökulögin. Þau tryggðu íslenskum sjómönnum sex tíma hvíld á sólarhring. Ég vildi með mestu vinsemd kanna hvort virðulegur forseti hefði hug á því að virða vökulögin því að það er að styttast í nefndafundi. Ég held að þetta hafi verið afskaplega farsæl lög og skynsamlegt sé að vera með lágmarkshvíldartíma. Ég held að fólk vinni miklu betur ef það fær þennan lágmarkshvíldartíma. Ég fer þess á leit við virðulegan forseta að hún upplýsi hvort hún hyggst fara eftir vökulögunum.