140. löggjafarþing — 94. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[01:56]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það liggur alveg fyrir hver línan er hjá hæstv. ríkisstjórn. Einhver hefði sagt að við værum ekki með mjög vitra leiðtoga við stjórnvölinn. Þrjóskan og þvermóðskan er slík að það skiptir engu máli þó að hagsmunir landsmanna verði fyrir borð bornir og öllum þeim málum sem þau sjálf telja að séu til hagsbóta fyrir fólkið í landinu verði hent út í hafsauga vegna þess að nú skuli þrjóskast við að vera með þetta skelfilega mál í alla nótt. Ég held að það sé þá æskilegt og eðlilegt í ljósi þessa að viðkomandi hæstv. ráðherra verði hér og taki þátt í umræðunni. Ég held að það hljóti að vera eðlileg krafa að hæstv. forsætisráðherra sé í salnum og skiptist á skoðunum við þingmenn. Það sama á að sjálfsögðu við um hæstv. ráðherra margra ráðuneyta og ég fagna því að sjá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra í salnum og hlakka til að eiga orðaskipti við hann á eftir. (Efnahrh.: Ég kemst ekki að.)