140. löggjafarþing — 94. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[02:08]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans ræðu. Hann talaði í upphafi um að ákveðinn ráðherra hefði kallað sig móðurráðherra, aðrir kalla viðkomandi ráðherra allsherjarráðherra og er það eitthvað sem komið er inn í íslenska umræðu. Þetta rifjaði upp fyrir mér orð hæstv. núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, þegar hann var nýtekinn við stjórnartaumunum. Þá sagði hann í þingræðu að það mætti líta svo á að hann og hæstv. forsætisráðherra væru nokkurs konar mamma og pabbi þingsins. Ég greip fram í þá ræðu hjá hv. formanni Vinstri grænna og sagði: Eigum við nú ekki frekar að kalla ykkur ömmu og afa þingsins? En þetta var á hans upphafsárum í ríkisstjórn, svo ánægður var hann með þessa norrænu velferðarstjórn sem hann er meðlimur í.

Það breytir því ekki að hér ræðum við þetta mál sem er afar einkennilegt. Þar sem hv. þm. Kristján Þór Júlíusson situr í fjárlaganefnd langar mig að velta þeirri spurningu upp, sem ég velti upp fyrr í kvöld í andsvari við hv. þm. Birgi Ármannsson, hvort hann líti ekki svo á að með þessari þingsályktunartillögu sé Alþingi, og við þingmenn, að framselja stórkostlega fjárstjórnarvald þingsins verði þessi tillaga samþykkt. Enginn kostnaðargreining liggur fyrir eins og hv. þingmaður fór yfir. Jú, það er búið að setja fram að þetta gæti kostað á bilinu 150–250 milljónir í húsnæðiskostnaði og annað er óútfylltur tékki. Er þetta ekki bein ávísun á afsal fjárveitingavaldsins frá Alþingi til framkvæmdarvaldsins? (Forseti hringir.) Er það ekki akkúrat þetta sem (Forseti hringir.) athugasemd var gerð við í rannsóknarskýrslu Alþingis? Og áttum við ekki að læra af þeim boðskap sem þar kom fram?