140. löggjafarþing — 94. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[02:16]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Varðandi þann þátt þessa máls sem lýtur að fjármunum og fjárlögum þá er þetta hárrétt ábending hjá hv. þingmanni: Eins og málið liggur fyrir, og athugasemdirnar sem settar eru fram í þingsályktunartillögunni bera með sér, er kostnaðarþáttur þessa máls algerlega ógreindur. Þetta er slumptala sem hleypur á gríðarlega miklu bili. Jafnhliða er áréttað í nefndaráliti meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að markmiðið með breytingunum sé ekki sparnaður.

Víða má sjá þess stað í greinargerð með tillögunni, í athugasemdum frá ríkisstjórninni og í nefndaráliti meiri hluta, að það stefni í aukin útgjöld. Það er einfaldlega í takt við það verklag sem maður hefur orðið var við, sérstaklega nú í upphafi þessa árs, þar sem við í fjárlaganefnd höfum þegar fengið fulltrúa ráðuneyta — ég minnist þess að í tvígang höfum við rætt þar og fengið fram frá ráðuneyti yfirlýsingu um að hafinn sé undirbúningur að fjáraukalagagerð. Þetta var einungis örfáum vikum eftir að fjárlög voru samþykkt á Alþingi. Þegar við fáum fjáraukalögin til þingsins í haust má með sanni segja að fjáraukalagagerðin hafi staðið allt frá ársbyrjun til þess tíma sem fjáraukalögin verða lögð fram.

Þetta mál er alveg klárlega þannig vaxið að það kallar á einhverjar fjáraukalagabeiðnir. Ég get fullyrt að núverandi ríkisstjórn mun örugglega (Forseti hringir.) reyna allar tiltækar leiðir til að fela þann kostnað (Forseti hringir.) sem af þessu leiðir og forðast það að þurfa að leggja fram fjáraukalagabeiðnir.