140. löggjafarþing — 94. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[02:26]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég ítreka það sem hefur komið fram áður undir þessum skemmtilega dagskrárlið í kvöld og nótt, þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, (Gripið fram í.) lögðu fram hugmynd í dag, tillögur sínar um lausn á dagskrá þingsins í dag, óumsemjanlega tillögu. (Gripið fram í.) Það var ekki boðið upp á það að semja um lausn og lyktir þessa máls sem við erum að ræða í nótt, því miður, (Gripið fram í.) en þá hefði verið hægt að ljúka þessu máli miklu fyrr.

Það er ekki að ósk stjórnarliða sem verið er að ræða þetta mál hér í nótt. Stjórnarandstaðan hefur krafist þess að ræða þetta lengi, jafnvel nefnt að rétt væri að ræða þetta mál dögum og vikum saman í viðbót við það sem þegar er komið. Ég tek undir með hv. þm. Lúðvíki Geirssyni, mér finnst ótækt að slíta fundi núna þegar liggur fyrir að það er mikið eftir órætt. Eins og forseti bendir réttilega á eru margir á mælendaskrá og það bætist jafnt og þétt við hana. (Forseti hringir.) Margir eiga eftir að segja mikið um þetta mál og mér finnst ótækt að slíta fundi núna þegar svo háttar til.