140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

skýrsla um áhrif frumvarpa um sjávarútvegsmál.

[10:37]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég gengst ekki við því. Ég tel að aðferðafræðin sem lögð er til grundvallar í veiðigjaldafrumvarpinu með annars vegar grunngjaldi og hins vegar afkomutengdu gjaldi sé rétt og undir það er reyndar víða tekið í umsögnum, þó að margir gagnrýni um leið að álagningarstuðlarnir séu einfaldlega of háir.

Framlegðin í íslenskum sjávarútvegi hefur langleiðina tvöfaldast frá því ástandi sem var fyrir hrun, úr 35–40 milljörðum í 75. Skuldir sjávarútvegsins hafa lækkað um 150–170 milljarða, eigið fé aukist yfir 200 milljarða þannig að staða greinarinnar hefur auðvitað stórbatnað. Greiningin á þoli hennar í dag til að greiða segir okkur hins vegar hryllilega sögu um hvernig ástandið var orðið í efnahag íslensks sjávarútvegs í lok vitleysistímans því að þrátt fyrir þennan mikla bata sem orðinn er, óvenjugóðar aðstæður þar sem saman fer lágt raungengi krónunnar, hátt afurðaverð og góð aflabrögð og framlegð upp á 75 milljarða kr. eða svo, (Forseti hringir.) eru sum fyrirtækin enn jafnilla sett og raun ber vitni. Það er kaldur veruleiki sem við þurfum að horfast í augu við og aðlaga okkur að. Ég treysti atvinnuveganefnd vel til þess í samráði við þá sérfræðinga sem hægt er að fá til ráðgjafar að komast að skynsamlegri niðurstöðu í þeim efnum.