140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

eftirlitsnefnd um framkvæmd skuldaaðlögunar.

[10:44]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vildi gjarnan að hæstv. ráðherra svaraði því skýrar hvort hann telji þetta heppilegt og hvort hér hafi ekki orðið trúnaðarbrestur á milli þess hluta starfa viðkomandi fræðimanns og þegar hann situr sem nefndarmaður í nefnd um sérstaka skuldaaðlögun.

Ég vil líka nefna að afskriftir í sjávarútvegi eru af stærðargráðunni 10–12 milljarðar, í landbúnaði eru þær innan við milljarður en í verslun og þjónustu eru þær tæplega 100 milljarðar. Ég vil því ítreka þá spurningu mína til hæstv. ráðherra hvort hann telji að Bændasamtök Íslands hafi misfarið með fé eins og fræðimaðurinn heldur fram í greininni sem svo óheppilega vill til að er einnig nefndarmaður í umboði hæstv. ráðherra. Má ætla að fullyrðingar prófessorsins sem hann hefur margoft lýst yfir í ræðu og riti um ágæti Evrópusambandsins og hins vegar afstöðu Bændasamtakanna til þess, hafi áhrif og því sé blandað saman (Gripið fram í.) í áróðurstengdum og gildishlöðnum greinum og yfirlýsingum hv. fræðimanns. [Frammíköll í sal.] (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður um þögn í sal. (Forseti hringir.) Fær forseti þögn í salinn? Forseti biður hv. þingmenn um að gæta orða sinna til þeirra sem eru fjarstaddir og geta ekki varið sig í þessum sal.)