140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

endurskoðun fiskveiðilöggjafarinnar.

[10:54]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það geti tæplega orðið lengur um það nokkur ágreiningur að endurskoðun fiskveiðilöggjafarinnar er komin í mjög alvarlegar ógöngur. Það er að mínu mati algerlega óhjákvæmilegt að nema staðar. Hér eru í húfi gríðarlega miklir hagsmunir. Við verðum að færa málið úr farvegi átaka og þar gegnir hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra miklu hlutverki.

Ég vek athygli á því að í nýrri skýrslu sem hér hefur verið vitnað til kemur fram að rangur grunnur sem lagður er til grundvallar veiðigjaldinu veldur því að verið er að ýkja gjaldtökuna um 100%. Það er ljóst mál að ýmis fyrirtæki munu ekki ráða við það.

Ég nefni annað dæmi í þessu sambandi og það er sú regla sem við köllum stundum 40/60% regluna, þ.e. sú regla að þeir sem nú hafa aflaheimildir munu ekki njóta aukningar, til dæmis í þorski, nema að hálfu.

Ég vek líka athygli á því að komið hefur fram að það séu ætluð stjórnarskrárbrot á að minnsta kosti fjórum greinum stjórnarskrárinnar. Þetta allt segir mér að við verðum að taka þessi mál mjög alvarlega og til mikillar endurskoðunar.

Komið hefur fram að ýmis fyrirtæki eru í þeirri stöðu að þau munu ekki ráða við skuldbindingar sínar að óbreyttu kerfi. Jafnframt kemur fram í þeirri skýrslu sem vitnað hefur verið til að með gildistöku þessa frumvarps muni þessum fyrirtækjum fjölga stórlega. Til dæmis mun um það bil helmingur stærstu fyrirtækjanna ekki ráða við skuldbindingar sínar ef þetta frumvarp verður samþykkt og eru það um 75% fyrirtækjanna í úrtaki varðandi krókaaflamarkið. (Gripið fram í.) Í greinargerðinni er sérstaklega sagt að erfið og nær vonlaus staða fyrirtækja í krókaaflamarki yrði hins vegar viðráðanleg hjá þeim ef þau nytu þessarar aukningar í þorski.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Er ekki fullt tilefni núna til þess að setjast niður og reyna að átta sig á því hver staðan er? Það er ljóst að málið er komið í mjög miklar ógöngur og við höfum einfaldlega ekki leyfi til þess að mínu mati að ganga fram með (Forseti hringir.) þessum hætti. Við verðum að nema staðar og við verðum að reyna að ná einhverju samkomulagi í þessu alvarlega og mikla máli.