140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

endurskoðun fiskveiðilöggjafarinnar.

[11:00]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég held að það sé miklu betra að við tökum efnislega umræðu um þetta mál þegar það kemur frá nefnd og þá aftur til umræðu. Það er hugsanlegt að sú umræða muni standa í nokkra klukkutíma miðað við ástandið á Sjálfstæðisflokknum um þessar mundir og gefst þá tækifæri til að ræða það.

Auðvitað er margt sem mætti um þetta segja og þar á meðal þá sérkennilegu mótsögn að nú koma menn hingað og segja að sjávarútvegurinn þoli eiginlega engar viðbótarálögur. Hann muni kannski komast út úr vandræðum sínum ef hann er látinn alveg í friði vegna þess að hann sé svo skuldugur og illa á sig kominn í því kvótakerfi sem ekki má hrófla við. Hv. þingmenn ættu kannski aðeins að velta því fyrir sér þegar þeir mikla þann vanda, þær skuldir og þá erfiðleika sem séu í íslenskum sjávarútvegi, hvernig á því stendur þá að þrátt fyrir einstakt góðæri í skilyrðum sjávarútvegsins núna samfellt í fjögur ár sé ástandið svona, (Forseti hringir.) að því marki sem við eigum að trúa því.