140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

bann við innflutningi á hráu kjöti.

[11:02]
Horfa

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að vekja athygli á þeim orðum hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra áðan sem rétt er að endurtaka, að ekkert sé athugavert við meðferð Bændasamtaka Íslands á opinberu fé. (Gripið fram í.) Mér finnst mjög mikilvægt að það komi fram í ljósi þess að ýmislegt hefur verið sagt og skrifað um meðferð þessara fjármuna.

Mig langar að ræða aðeins við hæstv. ráðherra um frétt sem birtist í Ríkisútvarpinu 2. maí síðastliðinn og fjallar um að Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hafi efasemdir um að bann við innflutningi á hráu kjöti standist EES-samninginn. Við þekkjum öll að í desember 2009 samþykkti Alþingi hið svokallaða matvælafrumvarp. Það var erfið fæðing og var mikil andstaða við ákveðinn hluta þess frumvarps, meðal annars varðandi hrátt kjöt.

Haustið 2009 lagði Jón Bjarnason, þá hæstv. ráðherra, nú hv. þingmaður, fram frumvarp en sleppti þar ákvæðum sem heimila innflutning á hráu kjöti og var það gert á grundvelli laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim sem eiga að tryggja að ekki berist sjúkdómar í næma íslenska búfjárstofna. Nú hefur ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, tilkynnt að hún sé ekki jafnsannfærð og fyrrverandi ráðherra um áframhaldandi höft á innflutningi á hráu kjöti. Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig hafa stjórnvöld svarað því? Er hætta á því að Íslendingar neyðist til að fara dómstólaleiðina með þetta eins og annað sem tilheyrir þessu ágæta Evrópusambandi og EES-samningi og verði jafnvel knúnir til að flytja inn hrátt kjöt?