140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

bann við innflutningi á hráu kjöti.

[11:06]
Horfa

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson (F):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og lýsi bara ánægju minni með viðbrögð hans og málatilbúnað hans í þessu máli. Ég fagna því að menn skuli ætla að fara þessa leið. Í sama fréttatíma Ríkisútvarpsins var einmitt fjallað um að ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, geri einnig athugasemdir við matvælaöryggi á Íslandi og telur að annmarkar séu á eftirliti með kjöt- og mjólkurvörum.

Við höfum oft talað um að íslenskur landbúnaður sé frábær og að íslenskar landbúnaðarvörur séu ákaflega heilnæmar og góðar þannig að þetta er mjög alvarlegt. Gustað hefur um þá ágætu stofnun sem kölluð er Matvælastofnun sem heyrir undir hæstv. ráðherra. Hagsmunafélög bænda hafa farið fram á stjórnsýsluúttekt. Við teljum mjög alvarlegt þegar er gerð athugasemd við matvælaeftirlit hér á landi. Getur hæstv. ráðherra sagt okkur hvar það mál stendur (Forseti hringir.) og hefur hann einhverja hugmynd um stjórnsýsluúttekt á Matvælastofnun?