140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

ummæli þingmanna um fjarstadda menn.

[11:12]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Að gefnu tilefni um fundarstjórn forseta vil ég segja að ég tek fyllilega undir að hér á ekki að dylgja um fólk sem ekki getur varið sig í þessum stól. Fólk getur farið yfir orðin í ræðu minni þar sem ég talaði um nefndarmann skipaðan af hæstv. ráðherra.

Hins vegar er það áhugaverð umræða, frú forseti, og er rétt að ræða um það í liðnum um fundarstjórn forseta eða störfum þingsins, að það virðist skipta máli hver talar. Má fræðimaður tala sem pólitíkus en pólitíkus ekki sem fræðimaður? Er jafnmikið frelsi fólgið í því? Við stjórnlagaþingskosningarnar kom fram að þar máttu stjórnmálamenn ekki bjóða sig fram en þegar stjórnlagaráðsmennirnir voru orðnir pólitíkusar, þegar þeir voru komnir í stjórnlagaráð, máttu þeir allir bjóða sig fram. (Forseti hringir.) Er ekki einhver þöggun í þessu samfélagi, eitthvað sérkennilegt? Er (Forseti hringir.) ekki betra að umræðan sé opinská og skýr?