140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

ummæli þingmanna um fjarstadda menn.

[11:27]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þm. Illugi Gunnarsson vék að er senn að hefjast framhald umræðu um breytingar á Stjórnarráði Íslands. Ég verð að segja að þessar uppákomur dag eftir dag við upphaf þingfundar eru mér ekki að skapi og ég held að við verðum öll að líta í eigin barm hvað það varðar og hugsa um margumræddan brag þingsins.

Ég vil því leyfa mér úr þessum ræðustól að endurtaka tilboð mitt og hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar frá því í gær til hv. stjórnarflokka og til hæstv. forseta um að dagskrármál nr. 2 og 17 verði tekin út af dagskrá í dag og önnur mál sem eru á dagskrá fari í umræðu nú þegar og komist til nefndar þannig að hægt verði (Forseti hringir.) að haga þingstörfum og nefndastörfum hér eftir helgi eins og fyrir er lagt í starfsáætlun þingsins. Þessi tillaga er lögð fram í einlægni og með það að markmiði að greiða fyrir þingstörfum. (Forseti hringir.) Ég vona að hæstv. forsætisráðherra muni beita sér fyrir því að tillaga okkar verði samþykkt.