140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[11:45]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ráða mátti kannski af svari mínu áðan er ég þeirrar skoðunar að fara verði sameiginlega með valdið, framkvæmdarvaldið og þingið. Ég tel að búið sé að einfalda fyrirkomulagið með því að koma með þingsályktunartillögu hingað inn en um leið er það þingsins að segja já eða nei við því. Ég tel þess vegna að það sé ekki þannig, ég get ekki tekið undir það að þetta sé vald sem liggi hjá forsætisráðherra alfarið, augljóslega ekki, annars værum við ekki að ræða þetta í þinginu með þessum hætti. En ég ítreka að það skiptir verulegu máli að sú þingsályktunartillaga sé vel útfærð. Þess vegna á slíkt að gerast við upphaf kjörtímabils. Í framhaldi af því að ríkisstjórn hefur verið mynduð á hún að koma fram með tillögur sínar um skipan verkefna innan Stjórnarráðsins, leggja það fyrir Alþingi í formi þingsályktunartillögu útfærða á þann hátt að menn sjái nákvæmlega hvar stofnanir eiga að vera, (Forseti hringir.) hvernig þær eiga að starfa, Alþingi tekur svo afstöðu til þess, síðan geta menn unnið eftir því næstu fjögur ár í það minnsta.