140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[11:54]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Illuga Gunnarssyni fyrir prýðisræðu. Ég ætlaði einmitt að spyrja hv. þingmann út í það sem hann endaði síðasta andsvar sitt á, eftirlit með fjármálamörkuðum. Nú hefur til að mynda komið fram í mikilli gagnrýni hv. þm. Árna Páls Árnasonar, fyrrverandi hæstv. ráðherra, að við hefðum átt að læra eftir að hafa lent í slíku hruni að aga og úthald þyrfti í það stjórnarkerfi sem við setjum upp.

Mig langar að vitna til skýrslu þingmannanefndarinnar sem byggð var á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, með leyfi forseta:

„Við endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands telur þingmannanefndin mikilvægt að fram komi hvaða reglur eigi að gilda um pólitíska starfsmenn ráðherra. Þá verði verklag innan ráðuneyta samræmt sem og skráning samskipta og skýrt sé með hvaða hætti ráðuneyti hafi eftirlit með þeim sjálfstæðu stofnunum sem undir þau heyra.“

Aðeins seinna stendur:

„Jafnframt er nauðsynlegt að skýrt verði hvaða stofnun sé ætlað það hlutverk að hafa heildaryfirsýn yfir kerfisáhættu, fjármálalegan stöðugleika og bera ábyrgð á að samræma viðbrögð.“

Vegna þessa og þeirra hugmynda sem menn voru með um stjórnsýsluúttekt á FME og Seðlabankanum og vegna þeirrar vinnu sem er í gangi í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki að eðlilegra hefði verið að fara í þær úttektir og halda þeirri stefnu sem menn tóku, og var umdeild þegar efnahags- og viðskiptaráðuneytið var sett á laggirnar í upphafi kjörtímabilsins því að þar átti öll vinnan að vera, í stað þess að skipta að því er virðist skyndilega um hest í miðri á án þess að fyrir liggi (Forseti hringir.) nægileg greiningarvinna og án þess að sú rökhyggja og rökfræði sem kemur fram hjá starfshópnum sé viðhöfð þannig að stjórnarliðar séu tilbúnir að koma og verja hana og sýna fram á (Forseti hringir.) að þetta sé rétt.