140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[11:56]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að þetta verklag er ekki nógu gott. Sá þáttur þessara breytinga sem snýr að stofnun efnahags- og fjármálaráðuneytisins, sem hefur með stjórn efnahagsmála að gera, yfirstjórn peningamála og annarra slíkra verkefna, fjárlagagerð — ef áður voru rök fyrir því að samþætta þyrfti þessa stjórn við eftirlit með fjármálamarkaði og hafa það innan sama ráðuneytis, en breyta síðan alveg um kúrs og setja Fjármálaeftirlitið inn í atvinnuvegaráðuneytið án þess að það sé nægjanlega rökstutt hvers vegna menn hafa breytt þessu og, eins og hv. þingmaður benti á, án þess að farið hafi fram nægjanleg greining á þessum þáttum, þá bendir það til þess enn og aftur að hér sé á ferðinni einhvers konar íhökunarpólitík, þ.e. að verið sé að merkja við að nú hafi verið klárað að breyta Stjórnarráðinu en menn láti sig minna varða hvort þær breytingar hafi verið úthugsaðar og skipulagðar þannig að gagn sé af þeim og hægt verði að búa að þeim til lengri tíma.

Það er eðlilegt ef einstök verkefni færast á milli, jafnvel með tiltölulega litlum fyrirvara því að við þurfum að hafa kerfið sveigjanlegt og opið en þættir sem snúa til dæmis að eftirliti með fjármálamarkaði, fjármálastöðugleika, þurfa að vera þannig að þeir standi til langs tíma. Það á ekki að hringla með þá.

Þess vegna hefði ég viljað fá miklu dýpri umræðu, bæði í gögnum sem bárust til nefndarinnar og í þingsalnum um það sem snýr að (Forseti hringir.) fjármálastöðugleikanum, starfsemi og hlutverki Seðlabanka og Fjármálaeftirlits.