140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[11:59]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Illuga Gunnarssyni fyrir andsvarið og skýr svör um það sem við ræddum áðan. Það hefur komið fram ítrekað að það hefur verið stefna hæstv. forsætisráðherra að breyta forminu á Stjórnarráðinu, ég held að þetta sé sjötta lagabreytingin sem kemur inn í þingið á þessu kjörtímabili. Það var nú nefnt hér kannski í kerskni í nótt að þetta væri orðin eins konar áráttuhegðun en ekki endilega að búið væri að íhuga og greina alla þætti á sem skynsamlegastan hátt.

Ég vil spyrja hv. þingmann undir lok seinna andsvars míns hvort það yfirbragð sem menn hafa verið að vísa til að hér sé verið að breyta Stjórnarráðinu í átt að norrænu velferðarkerfi og síðan þegar maður skoðar starfshópsskýrsluna og hvar ýmsar stofnanir eru, (Forseti hringir.) þar á meðal Fjármálaeftirlitið, hvort hann telji að það sé rétt skírskotun. Og hvort sú skírskotun sem er hér til skýrslu þingmannanefndarinnar sé rétt þegar þar er hvergi fjallað (Forseti hringir.) um fækkun ráðuneyta og hringlandahátt með mikilvægar ríkisstofnanir.