140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[12:15]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hafi hitt naglann á höfuðið þarna að í ríkisstjórnarsamstarfinu snýst þetta hjá öðrum stjórnarflokknum um aðildarviðræður að Evrópusambandinu, því að öllu er fórnandi í þeirra huga til að þær geti haldið áfram, sú auma vegferð sem það er og það auma vinnulag sem þar er viðhaft. Á meðan hinn ríkisstjórnarflokkurinn er með innan borðs fólk sem vill ekki fara í frekari nýtingu á orkuauðlindum okkar og vill mikla uppstokkun á atvinnulífinu og hefur staðið í vegi fyrir því að þessar burðargreinar í okkar atvinnulífi geti náð að þróast með eðlilegum hætti til að bæta lífskjör almennings í landinu eftir hið mikla efnahagshrun. Ég hef miklar áhyggjur af þessu. Ég held að hér séu undir miklir hagsmunir fyrir þjóð sem byggir afkomu sína svo augljóslega á tiltölulega fábrotnu atvinnulífi, ef við getum orðað það svo. Við höfum ferðaþjónustu sem er góðra gjalda verð og hefur verið að eflast og það er ánægjulegt, en það er nýting náttúruauðlinda sem hér skiptir máli og vægi þessara undirstöðuatvinnugreina okkar mun minnka mjög í áherslum í þessu ríkisstjórnarsamstarfi, það er alveg ljóst. Við ríkisstjórnarborðið verður til dæmis bara einn ráðherra sem fer með þennan málaflokk eftir þessar breytingar. Það er auðvitað algerlega óásættanlegt.

Það var ástæða fyrir því að við skiptum þessu upp á sínum tíma þegar atvinnulífið var að taka breytingum og við vorum að horfa meira til orkufreks iðnaðar upp úr 1960. (Forseti hringir.) Þá var atvinnuvegaráðuneyti breytt í tvö ráðuneyti eða þrjú og ég held að það sé okkur nauðsynlegt að sýna áherslurnar á mikilvægi þessara (Forseti hringir.) greina í okkar samfélagi með því að halda því áfram.

Ég get svo komið aðeins betur inn á hvalveiðar í seinna andsvari.