140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[12:19]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að svara hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur aðeins varðandi hvalveiðarnar. Ástæðan fyrir því að ég tek þær hér til umræðu sérstaklega er að þær eru í mínum huga mjög dæmigert mál fyrir misnotkun verndunarsinna. Hvalveiðar voru stoppaðar hér frá árinu 1986 á vettvangi Alþjóðahvalveiðiráðsins. Banninu átti að ljúka 1990 og það er enn í gildi og hefur í dag ekkert með stofnstærð að gera og eðlilega nýtingu náttúruauðlinda.

Við getum tekið þessa umræðu og sett hana í samhengi við það hversu mikilvægt er að við stöndum í lappirnar í atvinnumálum okkar um nýtingu náttúruauðlinda almennt. Við getum rifjað það upp þegar hvalveiðar voru að fara af stað aftur í vísindaskyni árið 2003 hvernig hamast var af hálfu þessara fulltrúa, þingmanna í Samfylkingunni og Vinstri grænum og þeirra sem hafa sömu hugmyndir og þetta fólk, og talin upp þau neikvæðu áhrif sem þessar veiðar mundu hafa á íslenskt samfélag. Hingað átti ferðamannastraumur að stöðvast, hér áttu greinar eins og hvalaskoðun að leggjast af og svo má lengi telja. Þær áttu að koma viðskiptabanni á okkur í útlöndum, þjóðir áttu að neita að kaupa afurðir okkar. Þetta voru hótanirnar sem voru viðhafðar og fjölmiðlar spiluðu með. Sem betur fer héldum við áfram baráttunni og þetta var löng barátta.

Hvað er að gerast í dag? Nú erum við farin að fá af þessu tekjur sem munu nema milljörðum í útflutningstekjur á hverju ári. Það er þegar farið að skipta miklum upphæðum. Við erum farin að fá atvinnusköpun, við erum farin að nýta með góðum árangri náttúruauðlindir landsins.

Margir mættu biðjast afsökunar á ummælum sínum og þeim spádómum sem gagnrýnislaust var haldið fram og voru ekki studdar neinum rökum á sínum tíma. Það eru margir, bæði í fjölmiðlaheiminum (Forseti hringir.) og hér á Alþingi og úti í samfélaginu sem jafnvel enn eru áfram í þessari baráttu þó að rökin (Forseti hringir.) séu ekki til staðar. Það er þetta sem ég hræðist ef við förum að gefa eftir á þessum vettvangi (Forseti hringir.) í nýtingu orkuauðlinda okkar, í nýtingu náttúruauðlinda okkar, og þá muni (Forseti hringir.) illa fara fyrir þessari þjóð.