140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[12:22]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ágæta ræðu. Hann talaði um uppskiptingu á verksviði og stofnunum milli ráðuneyta en allan þann tíma sem núverandi ríkisstjórn hefur verið að hræra í Stjórnarráðinu — ég held að það sé sjötta breytingin á kjörtímabilinu — hefur því verið haldið fram að unnið sé í anda norrænnar velferðarstjórnar, norrænnar stjórnsýslu, norrænnar stjórnskipunar eða uppsetningar á Stjórnarráði.

Loks nú þegar fyrri umferðin var búin og vísað hafði verið til þess að til væru einhver undirgöng koma fram ýmis gögn starfshópsins, sem hafði unnið að breytingunum á síðustu vikum eða mánuðum, og í þeim eru meðal annars upplýsingar um hvernig skipanin er á öðrum Norðurlöndum. Ég hef ekki tíma til að fara yfir það allt en varðandi Noreg — sem er á margan hátt líkur okkur, nýtir náttúruauðlindir og er með nokkuð öflugan sjávarútveg — hafa menn til að mynda valið það að vera með sérstakt sjávarútvegsráðuneyti sem er þá einnig með þær stofnanir sem tilheyra eins og Fiskveiðistofnun, Strandlengjustofnun, Hafrannsóknastofnun og Rannsóknastofnun fæðu og sjávarfangs. Eins hafa þeir í Noregi sérstakt landbúnaðar- og matvælaráðuneyti og eru með sérstakt atvinnu- og viðskiptaráðuneyti — eru sem sagt með þrjú ráðuneyti.

Umhverfisráðuneytið er hins vegar hreint ráðuneyti, eins og ég orðaði það einhvern tímann, og engin tilraun gerð til að blanda því saman við mál sem heyra undir atvinnuvegaráðuneytin, landbúnaðarráðuneytið, sjávarútvegsráðuneytið, og atvinnu- og viðskiptaráðuneytið. (Forseti hringir.) En hér virðist það einmitt vera hugmyndafræðin að hræra þessu saman. Ég spyr því: Finnst hv. þingmanni það vera í anda norrænnar stjórnsýslu (Forseti hringir.) eða hvaðan koma þær hugmyndir og af hverju (Forseti hringir.) nota menn þetta sem rök?