140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[12:25]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hlýtur að vera þannig hjá hverri þjóð að hún verður að skipa málum á þann veg sem henni hentar og út frá þeim áherslum sem henni er nauðsynlegt að forgangsraða eftir. Við eigum ekkert mikið sameiginlegt með Dönum þegar kemur að aðaláhersluatriðum í samfélagi okkar og þá á ég við í atvinnusköpun og slíku. Það eru allt aðrar forsendur sem liggja til grundvallar þar.

Við eigum miklu meiri samleið með Noregi eins og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson kom inn á og að því leyti eigum við ekki að horfa eingöngu til fyrirmynda hjá öðrum heldur þurfum við fyrst og fremst að horfa inn á við og gera okkur grein fyrir því hvar áherslur okkar þurfa að liggja í þessum málum. Að því leyti eru þessar breytingar og tillögur, eins og fram hefur komið, ekkert sérstaklega í samræmi við norræna stjórnsýslu þar sem málum er háttað með mismunandi hætti; og við þurfum að horfa inn á við í okkar skipulagi.

Noregur byggir afkomu sína á nýtingu náttúruauðlinda. Sjávarútvegur er þar öflugur og landbúnaður nokkur og olíuvinnsla með þeim hætti sem hún er, og er þeirra stærsta náttúruauðlind. Við horfum upp á það að þær breytingar gætu kannski orðið á næstu árum. Það er því, eins og ég kom inn á í ræðu minni, mikið áhyggjuefni að ríkisstjórnin skuli endurspegla þær áherslur að vilja auka mjög á vægi allra verndunarsjónarmiða og auka á vægi umhverfisráðuneytis og auðlindaráðuneytis (Forseti hringir.) á meðan skella á öllum málaflokkum sem snúa að (Forseti hringir.) nýtingunni saman. Ég hef miklar áhyggjur af því.