140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[12:32]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Þetta var þörf upprifjun hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni þegar hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra er búinn að hrifsa til sín fjögur ráðuneyti og svo þurfti þessi ráðherra að vera í Kanada sem efnahags- og viðskiptaráðherra og þá var náttúrlega sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra með honum. Þetta sýnir bara fáránleikann í þessu öllu saman eða við skulum frekar segja valdagræðgi eða það að treysta ekki öðrum til verkanna en sjálfum sér eða það að þurfa að ýta óþægum ráðherrum út úr ríkisstjórninni. Þetta sýnir bara fram á hvert við erum komin.

Svo er það þingsályktunartillagan sem liggur hér fyrir. Það á að fækka ráðuneytunum enn frekar og hringla í þeim, fækka enn frekar í ríkisstjórninni, alla vega til að byrja með, því að í nefndaráliti meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er viðruð sú skoðun að sé ótti við það að hæstv. ráðherrar hafi ekki yfirsýn yfir svo stór ráðuneyti ætti að láta skoða hvort ekki ætti að taka upp aðstoðarráðherra. Það leysir enginn ráðherra af né undan ábyrgð hans í ráðuneyti. Hvers vegna er verið að sameina ráðuneyti samkvæmt þessari þingsályktunartillögu, fækka ráðherrum, fækka nokkrum skrifstofustjórum og nokkrum ráðherrabílstjórum ef á svo, þegar búið er að sameina þessi ráðuneyti, að búa til ný störf, ný starfsheiti, hin svokölluðu aðstoðarráðherrastarfsheiti?

Þetta sýnir hvers konar bull og vitleysa þetta mál er, sérstaklega í ljósi þess að þessi hugmynd kom inn á seinni stigum málsins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og þetta var sett inn í nefndarálit meiri hlutans sem kemur þá til skoðunar sem lögskýringargagn. (Gripið fram í: Hneyksli.) Ekkert rætt í ríkisstjórn. Já, þetta er hneyksli, hv. þingmaður, eins og allt annað sem þessi ríkisstjórn kemur nálægt.

Mig langar líka til að minna aftur á það sem kom fram í umræðunni í morgun og hv. þm. Jón Gunnarsson og fleiri hafa minnst á, það er tilboðið sem við í stjórnarandstöðunni — fyrirgefðu, herra forseti, við þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins — gerðum ríkisstjórninni í gær. Hreyfingin stendur ekki með okkur í stjórnarandstöðunni á móti þessu máli. Ég hef kallað það svo að nú séum við komin með þingflokk sem styður ríkisstjórnina án ráðuneytis. Tilboðið hljóðaði upp á að við mundum hvíla þetta mál á meðan framkvæmdarvaldið fyndi betri flöt á því og svaraði þeim spurningum sem hafa komið fram í þessum mikilvægu umræðum, því að þær eru allar skrifaðar niður ræðurnar sem hér eru fluttar, svaraði þeim efnislega því að hæstv. ráðherrar láta ekki sjá sig í þingsal í dag frekar en í gær eða fyrradag. Ég spyr eftir vopni okkar þingmanna til þess að fá svör við þeim spurningum sem hér liggja fyrir. Það er einkennilegt að hægt sé að leggja fram svo veigamikið mál og að ekki nokkur einasti maður þurfi fyrir hönd ríkisstjórnarflokkanna að svara þeim spurningum sem við komum með.

Varðandi það sem snýr að fjárhagsáætlun þessa verkefnis þá hef ég farið yfir það að hún er engin, má segja, það var kríuð út tala milli umræðna. En þetta sýnir okkur líka hvað við þurfum að styrkja Alþingi sem stofnun gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það er ekki skylda að fjármálaráðuneytið gefi fjárhagsáætlun með þingsályktunartillögum þrátt fyrir að þær séu eins stórar í sniðum og þessi þingsályktunartillaga er. En þá segi ég líka, fyrst það er ekki skylda fjármálaráðuneytisins og hér er ekki gerð kostnaðaráætlun, að það sýnir náttúrlega þörfina á því, þá brýnu og knýjandi þörf að hér verði tekin upp rannsóknar- og upplýsingaþjónusta ásamt lagaskrifstofu Alþingis svo við þingmenn getum tekið rökstudda ákvörðun um hvað til dæmis hlutirnir kosta. Og enn fremur að við getum þá beint svona málum sem við teljum að jafnvel stríði gegn stjórnarskrá til lagaskrifstofu Alþingis til yfirlestrar þannig að hér sé hægt að afgreiða mál á faglegan hátt og við séum ekki að eyða tíma okkar í ræðustól í spurningar um tæknileg atriði, eins og t.d. kostnað við ákveðnar þingsályktunartillögur og frumvörp og hvort mál standist stjórnarskrá.