140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[12:38]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að beina einni fyrirspurn til hv. þingmanns sem kom aðeins inn á það að þróunin mundi væntanlega verða sú að fleiri en einn ráðherra yrði í hverju ráðuneyti. Af því að hv. þingmaður situr í þeirri nefnd sem hafði þetta mál til umfjöllunar langar mig að vita hvort nefndin hafi rætt eitthvað með hvaða hætti ábyrgð yrði skipt í slíkum tilvikum og hver ábyrgðarlínan yrði. Þetta var stórt atriði, sem meðal annars var fjallað svolítið um í rannsóknarskýrslu Alþingis og í kjölfar skýrslunnar og þeirrar vinnu sem fram fór í þinginu vegna hennar, að skýra þyrfti ábyrgð ráðherra á þeim stofnunum sem undir þá heyrðu og það yrði að vera alveg ljóst hvaða ráðherra bæri ábyrgð á hvaða málaflokki til þess að einhver stjórn væri á þessu.