140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

689. mál
[13:41]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp um breytingu á lögum um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar. Það er ekki stórmál, það er lítið mál en getur skipt verulegu máli fyrir þá sem það varðar. Þegar veittir eru styrkir til stofnunar nýrra hitaveitna hafa hingað til verið dregnir frá styrkir sem menn hafa fengið áður við sömu hitaveitu, til dæmis vegna borana og annars slíks, frá opinberum aðilum. Þetta eru ekki stórar upphæðir. Þetta eru örfá tilfelli, ég held fimm sinnum á níu árum og styrkurinn er samtals 26 milljónir. Það er ekki vandamál og um það ætla ég ekki að ræða hér.

En mig langar til að bæta því inn í þessa umræðu og það sem nefndin fær til skoðunar að menn kanni það að hverfa frá þessu styrkjakerfi. Það minnir óhuggulega mikið á Sovét. Fyrst er raforkan niðurgreidd og vegna þess að ekkert getur keppt við hina niðurgreiddu orku eru veittir styrkir til að virkja og koma upp hitaveitu og öðru slíku þannig að styrkirnir leiða af sér styrki. Slíkar niðurgreiðslur eru alltaf stórhættulegar af því að þá leita menn ekki að hagkvæmustu lausninni. Það er bara þannig.

Ég vildi að menn skoðuðu það í nefndinni að taka upp staðaruppbót fyrir þá sem búa á köldum svæðum, um það bil 30 þús. kr. á mann. Þá mætti segja við fólk: Þið fáið 30 þús. kr. fyrir að búa á þessum stað og þið skulið sjálf sjá um hvernig þið hitið húsin ykkar. Það geta menn gert með varmadælum. Það geta menn gert með vindorku og ýmsum öðrum ráðum, og flytja orkuna inn í húsin. Þá mundi hugkvæmni borgaranna fá að njóta sín og þá mundi hver og einn reyna að leysa mál sín með hagkvæmustum hætti. Einn getur notað rekavið til þess að hita húsið sitt og var það svo sem gert hérna einu sinni. Ég vil bara vara við þessu Sovét-dæmi varðandi niðurgreiðslur.

Svo kemur spurningin um auðlindagjald. Það er mjög vinsælt núna að ræða um auðlind hér og auðlind þar. Það er óneitanlega auðlind fyrir Sauðárkrók eða Reykjavík að hafa svona ódýra orku, alveg sérstaklega Sauðárkrók, rétt við bæjardyrnar. Svo er kannski staður skammt þar frá sem ekki nýtur þeirrar auðlindar. Þá er spurningin: Er ekki réttmætt að sú staðaruppbót sem ég er að tala um heiti ekki staðaruppbót heldur hlutdeild í auðlind, hlutdeild í auðlind hinna sem mundu þá greiða fyrir það gjald, sérstaklega þeir sem búa við mjög hagstæðar orkulindir?

Ég varpa þessu inn í umræðuna af því að ég tel að ef fjölskylda fengi 30 þús. kr., segjum á fjögurra mánaða fresti, 120 þús. kr. á ári og enga aðra styrki til að hita, mundi sú fjölskylda leita að hagkvæmustu lausninni á hverjum stað til þess að leysa það mál. Það er þjóðhagslega sniðugt. Það er líka gott fyrir borgarann sjálfan o.s.frv. Það má til dæmis einangra húsin betur. Það eru mjög margar leiðir til þess að halda húsum heitum og flytja orku inn í hús.

Ég vil bara koma þessu inn í umræðuna, ég ætla ekki að tefja hana. Ég tek það fram að hér erum við í rauninni með mjög lítið mál sem er að laga það hvernig við bregðumst við í styrkjum til hitaveitna sem eru til komnir vegna þess að raforkan er niðurgreidd. Það leiðir sem sagt hvert af öðru. Dæmigert Sovét-kerfi.