140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[14:14]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina. Mig langar aðeins að staldra við 14. gr., þ.e. þann þátt þessa máls sem snýr að því að hæstv. ráðherra setji reglugerð um frekari skilyrði lána til leiguíbúða. Það kemur líka fram í umsögn með frumvarpinu að Íbúðalánasjóður eigi í dag um 1.750 fasteignir og þar af standi 1.000 þeirra auðar eða séu ekki fullkláraðar.

Þar sem ég þekki til í einu sveitarfélagi yfirtók Íbúðalánasjóður leigufélag sem leigði út íbúðir. Ekkert annað leigufélag er þar starfandi nema sveitarfélagið sem hefur endurleigt eða leigt íbúðir þannig að á leigumarkaðnum á landsbyggðinni er í mjög mörgum tilfellum bara sveitarfélagið. Maður hefur heyrt að það sem hefur hamlað Íbúðalánasjóði að fara inn á leigumarkaðinn, sérstaklega úti á landsbyggðinni og náttúrlega alls staðar, séu þau samkeppnissjónarmið sem hann er settur undir. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sjái flöt á því að Íbúðalánasjóður fái leiðbeinandi reglur frá Samkeppniseftirlitinu um til dæmis ákveðið landsvæði þar sem staðan yrði metin svo Íbúðalánasjóður sé alveg með það á hreinu að hann væri ekki að ganga á svig við samkeppnislög í þeim tilfellum.