140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[14:16]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson bendir þarna á atriði sem hafa verið í skoðun, annars vegar þetta sem kemur réttilega fram og ég var búinn að tæpa á, að mörg af þeim félögum sem fóru af stað og fengu leyfi til þess að byggja leiguíbúðir fóru síðan á hausinn og Íbúðalánasjóður situr uppi með þær íbúðir. Í sumt af þessu húsnæði var fólk flutt inn en mjög margar voru ekki komnar í notkun. Það á eftir að ljúka sumum þessara íbúða til að gera þær nothæfar.

Miðað við nýjustu upplýsingar held ég að 600–700 íbúðir séu í leigu á vegum Íbúðalánasjóðs í framhaldi af yfirtöku á þeim. Það er unnið að því að þessar íbúðir fari undir leigufélag á vegum Íbúðalánasjóðs sem er liður í því að auka framboðið á leiguíbúðum og tryggja að svo verði, en það hafa verið ákveðnir annmarkar eins og hv. þingmaður bendir á, þ.e. Íbúðalánasjóður hefur sett sér það markmið og hefur unnið samkvæmt því að reyna að koma ekki inn á markaðinn með mikinn fjölda íbúða, hvorki í sölu né leigu, þannig að það raski ekki markaðnum eða „dömpi“ hann. Hins vegar hefur það orðið á ákveðnum svæðum og okkur hv. þingmanni er báðum kunnugt um dæmi úr hans heimahéraði, á Snæfellsnesinu, þar sem yrði enginn leigumarkaður annar en á vegum hins opinbera ef Íbúðalánasjóður færi inn á markaðinn og síðan sveitarfélagið. Þar hafa menn haft áhyggjur af því að ef einhverjum dytti í hug að koma inn á markaðinn yrði Íbúðalánasjóður kærður fyrir samkeppnisyfirvöldum. Það mál er í sérstakri skoðun að ég best veit og að minni ósk. Þetta gildir um Reykjanes og aðra staði þar sem skiptir miklu máli að sé framboð af leiguhúsnæði og við munum að sjálfsögðu vinna að því að Íbúðalánasjóður leysi það eftir því sem mögulegt er. En alltaf verðum við að hafa það að leiðarljósi sem sagt er í tilvitnaðri 14. gr., við þurfum að passa okkur á því að þetta húsnæði sé á viðráðanlegu verði og hentugt fyrir þá sem á þurfa að halda.