140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[14:23]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Það eru nokkur atriði sem ég vildi fá að ítreka við 1. umr. um breytingar á lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál, sem mun í framhaldinu fara inn í velferðarnefnd þar sem ég á sæti.

Ég held að hæstv. ráðherra hafi reifað það ágætlega í framsögu sinni að það eru alveg skýrar forsendur fyrir því af hverju þarf að setja þessar reglur um starfsemi Íbúðalánasjóðs og raunar er ástæða fyrir því að við þurfum að setja ákveðnar takmarkanir um viðskipti sjóðsins. Að sama skapi ítreka ég það sem kom hérna fram, þótt það sé ekki beint á málasviði velferðarráðherra á hann engu að síður sæti í ríkisstjórn. Ég held að það sé mjög brýnt að stjórnvöld taki umræðuna og hefji undirbúning að því að setja hér sérlög um fasteignalán. Það er fátt sem varðar efnahag einstakra heimila eða bara efnahagslífið í heildina meira en það að tryggja að skynsamlega sé staðið að lánveitingum vegna kaupa á íbúðarhúsnæði. Það sýndi sig svo átakanlega, ekki bara á Íslandi heldur víðs vegar um heiminn, ég nefni þá sérstaklega hið svokallaða „subprime“-hrun í Bandaríkjunum, hvað það getur haft mikil áhrif þegar ekki er staðið nægilega vel að húsnæðislánveitingum. Rannsóknir hafa sýnt fram á að það sé jafnvel hættulegra fyrir fjármálalegan stöðugleika þegar það verður til fasteignabóla og síðan í framhaldinu hrun vegna óvarfærinna lánveitinga en þegar það verður til hlutafjárverðsbóla. Þótt það falli ekki beint undir þessi lög ítreka ég að ég tel að það skipti alveg gífurlega miklu máli.

Ég vil bara tjá það hér með að þegar ég sat í stýrihópi um mótun húsnæðisstefnu fékk ég mjög sterklega á tilfinninguna að áhersla þeirra sem leiddu þá vinnu og síðan núna þegar maður skoðar frumvarpið sé á að horfa svolítið mikið á uppbyggingu á almennum leigufélögum. Þó að við séum öll sammála um það, og ég tek undir það sem segir hér, að þar eigum við fyrst og fremst að horfa á uppbyggingu leigufélaga sem eru rekin í hagnaðarskyni og eru með langtímamarkmið sem hluta af stefnu sinni og sýn, þurfti ég þar að hafa heilmikið fyrir því að koma inn orðinu húsnæðissamvinnufélög. Þau eru að sjálfsögðu, og hafa alltaf verið, rekin sem hagnaðarlaus starfsemi, langtímamarkmið þeirra er að tryggja félagsmönnum sínum öruggt húsnæði, langtímahúsnæði, og þess vegna skiptir svo miklu máli að það sé algjörlega skýrt að þær lagabreytingar sem hér er verið að leggja til varði líka húsnæðissamvinnufélög. Það á ekki að vera nokkur vafi um það, það á bara að taka mjög skýrt fram í þessum texta.

Húsnæðissamvinnufélög eru meðal þess sem einkennir húsnæðismarkaðinn í Danmörku og Svíþjóð. Þar er líka mjög sterkur leigumarkaður, en það er mjög eftirsóknarvert að verða félagsmaður og eignast búseturétt í húsnæðissamvinnufélögum á grundvelli þess að þar eru menn komnir inn í mjög traust og öruggt umhverfi sem félagsmenn með möguleika síðan á að skipta í annað húsnæði eftir því sem fjölskylduaðstæður breytast, bæði stækka og síðan minnka eftir að börnin fara að heiman. Það tengist langri sögu þessara félaga.

Hins vegar hefur verið talað um að eitt af vandamálum fyrir íslensk húsnæðissamvinnufélög hafi verið lítið eigið fé. Ég held að það megi fullyrða líka um almennu leigufélögin, svona í ljósi reynslu Íbúðalánasjóðs af þeim fyrirbærum á Íslandi. Þá vil ég benda á að á sínum tíma, á 3. og 4. áratugnum, eins og í Danmörku þegar verið var að byggja upp húsnæðissamvinnufélögin, var fyrst og fremst félagslegur stuðningur eða stuðningur stjórnvalda á þeim tíma við húsnæðismarkaðinn í formi hagstæðra lánveitinga, stofnstyrkja eða hagstæðs skattumhverfis fyrir húsnæðissamvinnufélögin. Þar með hefur á öllum þessum árum byggst upp mjög sterkt eigið fé innan þessara félaga.

Ég er nú sannfærð um, bæði í ljósi þess sem hæstv. ráðherra sagði í svörum við spurningum mínum og síðan þess sem varð á endanum niðurstaða stýrihópsins um húsnæðisstefnu, að þetta er nokkuð sem við erum sammála um. Við erum sammála um mikilvægi þess að fjölga valkostum í búsetuformum og við þurfum að tryggja að fólk viti, óháð því hvaða valkost það velur, að það sé að velja öruggt húsnæði, geti jafnvel verið að velja sér framtíðarvalkost í húsnæði.

Ég gleymi því aldrei þegar ég fór til Þýskalands í kringum tvítugt, heimsótti vini mína og heyrði að þar gerðu menn húsaleigusamninga til fjölda áratuga, ekki bara til ára eða ótímabundið, heldur var skilgreint að viðkomandi væri með húsaleigusamning til 50 eða 60 ára. Ég held að svo marga, sérstaklega ungt fólk eins og kom fram í svörum hæstv. ráðherra nýlega til mín um lánsveðin, dreymi um þessa valkosti eftir reynslu undanfarinna ára, að geta valið að skuldsetja sig ekki en samt tryggja fjölskyldu sinni öruggt húsnæði. Það er það sem ég mun leggja áherslu á við vinnslu þessa máls í velferðarnefnd og að við séum að búa til slíkan ramma fyrir þennan möguleika.