140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[14:42]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu og heyri að hv. velferðarnefnd fær ágætt veganesti.

Vegna ábendinga hv. þm. Eyglóar Harðardóttur þá er það skilningur minn þegar við höfum rætt um almenn leigufélög að við séum fyrst og fremst að tala um leigufélög sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni og í rauninni opinber félög jafnt og félög eins og hér voru nefnd, samvinnufélög, búsetafélög o.s.frv. Það skiptir auðvitað máli vegna þess að við höfum verið að horfa til þess að Íbúðalánasjóður geti komið inn á þennan markað. Við höfum skoðað það með lífeyrissjóðunum og sveitarfélögin hafa líka talað um að komast inn á þennan markað að einhverju leyti til að tryggja nægt framboð. Það er í samræmi við það sem hv. þm. Pétur H. Blöndal bendir á að við getum auðvitað ekki búið við það að hér fjölgi ekki íbúðum í langan tíma þó að horfast verði í augu við það að skuldsetning íslenskra heimila tvöfaldaðist frá árinu 2004 og fram að hruni, þegar Íbúðalánasjóður var nánast einn á markaðnum með u.þ.b. 700 milljarða í lánum til íbúðarhúsnæðis en bankarnir komu inn með jafnháa upphæð á einungis fjórum árum sem er gríðarlega mikil breyting og auðvitað hefur það haft veruleg áhrif á allt sem á eftir hefur komið.

Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir að vekja athygli á því sérstaklega að í þessu frumvarpi, sem ég fór svo sem ekki ítarlega í gegnum í ræðu minni, eru auknar kröfur í samræmi við kröfur Fjármálaeftirlitsins og einmitt verið að gera sambærilegar kröfur að mestu um hæfisskilyrði fyrir stjórnarmenn svipað og eru í lífeyrissjóðum og í öðrum fjármálastofnunum, og eins um eftirlit og áhættugreiningar og annað slíkt sem skiptir mjög miklu máli að Íbúðalánasjóður hafi í lagi.

Bæði hv. þm. Ásbjörn Óttarsson og hv. þm. Eygló Harðardóttir hafa bent ítrekað á þetta með samvinnufélögin og ég tek undir það og hvatningu um að fylgja því eftir sem hefur verið gert nú þegar. Enn fremur að þar sem vantar leiguíbúðir á ákveðnum svæðum verði þessu fylgt eftir. Ég get ekki svarað hvenær það verður komið í gang en við höfum rætt um að leigufélögin yrðu tilbúin með haustinu. Ég geri mér grein fyrir því á sumum svæðum er um að ræða árstíðabundin störf, m.a. í skólum, þar sem getur skipt máli að Íbúðalánasjóður sé tilbúinn að svara því fyrr hvort íbúðir sem sjóðurinn er með séu tómar og geti komist í notkun fyrr. Við munum að sjálfsögðu fylgja því eftir og reyna að tryggja að svo verði.

En ég þakka kærlega fyrir þessa umræðu. Ég veit að frumvarpið fær vandaða umfjöllun hjá hv. velferðarnefnd sem hefur unnið sérlega vel að málum.