140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

atvinnutengd starfsendurhæfing og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða.

735. mál
[14:45]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða. Aðdragandi frumvarpsins er nokkur, en árið 2008 var um það samið í kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins að þróun nýs fyrirkomulags endurhæfingar yrði þegar hafin með því að skipuleggja þjónustu og veita úrræði fyrir þá starfsmenn sem veikjast til lengri tíma og slasast þannig að starfsgeta þeirra skerðist. Markmiðið var að koma að málum eins snemma og kostur væri til að stuðla að því að hver einstaklingur yrði svo virkur á vinnumarkaði sem starfsgeta hans leyfði. Var jafnframt samið um að sérstakt iðgjald yrði lagt á launagreiðendur frá og með 1. júní það ár sem renna skyldi til sérstaks sjóðs sem rekinn yrði í þessum tilgangi. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við framangreinda kjarasamninga kom meðal annars fram að samkomulag væri milli samningsaðila um að hefja uppbyggingu áfallatrygginga. Fyrirhugað væri að leggja nýtt 0,13% launatengt gjald, áfallatryggingagjald, á launagreiðendur samkvæmt kjarasamningum. Enn fremur er gert ráð fyrir að ríkissjóður legði fyrrgreindum sjóði til sömu fjárhæð frá og með árinu 2009.

Aðilar vinnumarkaðarins stofnuðu sjóðinn 19. maí 2008 til að efna framangreind ákvæði kjarasamningsins og heitir sá sjóður nú VIRK-Starfsendurhæfingarsjóður. Aldrei varð úr því að ríkissjóður greiddi til starfsendurhæfingarsjóðsins og var því ítrekað í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga 5. maí 2011 að hún hygðist beita sér fyrir því að lögfesta skyldu allra launagreiðenda til að greiða 0,13% iðgjald til VIRK-Starfsendurhæfingarsjóðs auk þess sem samsvarandi iðgjald kæmi frá lífeyrissjóðunum. Í yfirlýsingunni var einnig sagt að velferðarráðherra mundi skipa samráðsnefnd aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda til að koma fram með nánari tillögur um skipulag og samhæfingu starfsendurhæfingarmála þar sem miðað yrði við jafna kostnaðarskiptingu í þrjá hluta. Jafnframt yrði skilgreind aðkoma ríkisvaldsins varðandi faglegar útfærslur og samspil starfsendurhæfingar sem tengist vinnumarkaði og þjónustu heilbrigðiskerfisins.

Í fyrrasumar var lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða breytt með ákvæði til bráðabirgða um skyldu lífeyrissjóða til að greiða til VIRK-Starfsendurhæfingarsjóðs vegna starfsendurhæfingar sjóðfélaga sem samsvaraði þessum 0,13% af samanlögðum iðgjaldsstofni samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laganna. Enn fremur var mælt fyrir um skyldu launagreiðenda, þar með talið þeirra sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, til að greiða til VIRK-Starfsendurhæfingarsjóðs sama hlutfall af iðgjaldsstofni samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laganna.

Í bráðabirgðaákvæðinu var jafnframt ítrekað að samráðsnefnd aðila vinnumarkaðarins, stjórnvalda og Landssamtaka lífeyrissjóða yrði skipuð til að koma fram með nánari tillögur um skipulag og samhæfingu starfsendurhæfingarmála og miðað við jafna kostnaðarskiptingu í þrjá hluta. Átti nefndin að leggja fram tillögur að skýrum lagaramma eða umgjörð VIRK-Starfsendurhæfingarsjóðs, meðal annars varðandi greiðsluskyldu, ábyrgð og eftirlit. Í samræmi við þetta skipaði ég samráðsnefnd um framtíðarskipulag starfsendurhæfingar þar sem sæti áttu fulltrúar fjármálaráðuneytisins, Landssamtaka lífeyrissjóða, velferðarráðuneytis og VIRK-Starfsendurhæfingarsjóðs. Nefndin hóf störf í júní 2011, en frumvarp það sem hér um ræðir er afrakstur vinnu nefndarinnar. Er það meðal annars lagt fram í því skyni að vinna að uppbyggingu markvissrar atvinnutengdrar starfsendurhæfingar einstaklinga með skerta starfsgetu í kjölfar veikinda eða slysa svo stuðla megi að þátttöku og virkni þeirra á vinnumarkaði.

Hæstv. forseti. Ég tel mikilvægt að sem flestir geti tekið virkan þátt á vinnumarkaði sér og sínum til hagsbóta en einnig verður að telja að það komi samfélaginu til góða, og þá ekki síst atvinnulífinu sjálfu. Því er ekki síður þýðingarmikið að einstaklingar sem þurfa aðstoð til að verða virkir í samfélaginu fái þjónustu við hæfi hverju sinni. Þannig er gengið út frá því að atvinnutengd starfsendurhæfing verði einn þáttur í heildstæðu kerfi endurhæfingar þar sem starfsendurhæfingarsjóður og stofnanir á vegum ríkis og sveitarfélaga starfi saman eins og kostur er. Áhersla er því lögð á að það kerfi atvinnutengdrar starfsendurhæfingar sem hér er lagt til starfi samhliða læknisfræðilegri og félagslegri endurhæfingu.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að atvinnutengd starfsendurhæfing verði í höndum starfsendurhæfingarsjóða. Lagt er til að öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi á aldrinum 16 til 70 ára skuli tryggður réttur til atvinnutengdrar starfsendurhæfingar með því að greitt sé iðgjald vegna þeirra í starfsendurhæfingarsjóð en aðild að tilteknum starfsendurhæfingarsjóði verði ákveðin í kjarasamningum, ráðningarsamningum eða með öðrum sambærilegum hætti. Þeir sem teljast tryggðir samkvæmt frumvarpinu eru enn fremur þeir sem fá greiðslur frá sjúkrasjóðum eða fjölskyldu- og styrktarsjóðum stéttarfélaga, Atvinnuleysistryggingasjóði eða Fæðingarorlofssjóði. Hið sama máli gegnir um þá sem fá greiðslur samkvæmt lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna og lögum um réttindi lifandi líffæragjafa til tímabundinnar fjárhagsaðstoðar, auk þeirra sem fá örorkulífeyri frá lífeyrissjóðum eða eru fjarverandi frá eigin atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi vegna veikinda.

Ég legg sérstaka áherslu á að í frumvarpinu er lagt til að þeim sem standa utan vinnumarkaðar verði tryggður réttur til atvinnutengdrar starfsendurhæfingar á grundvelli samninga sem velferðarráðherra gerir við starfsendurhæfingarsjóði. Þannig er gert ráð fyrir að almennt eigi allir einstaklingar rétt til atvinnutengdrar starfsendurhæfingar, hvort sem þeir eru á vinnumarkaði eða standa utan hans, að því gefnu að þeir uppfylli skilyrði frumvarpsins að öðru leyti.

Í frumvarpinu er lagt til að atvinnulífið, lífeyrissjóðir og ríkissjóður standi undir rekstri starfsendurhæfingarsjóða með jafnri kostnaðarskiptingu sín á milli eins og áður hefur komið fram.

Enn fremur er gert ráð fyrir að rekstur starfsendurhæfingarsjóða skuli rúmast innan þeirra framlaga sem ákveðin eru hverju sinni þar sem ekki er gert ráð fyrir að sjóðirnir hafi aðrar tekjur. Þannig gerir frumvarp þetta ráð fyrir að ríkissjóður greiði sem nemur einum þriðja heildarframlaga sem ætlað er að standi straum af rekstri starfsendurhæfingarsjóða.

Í frumvarpinu er jafnframt gert ráð fyrir að hluti tryggingagjaldsins samkvæmt lögum um tryggingagjald renni til starfsendurhæfingarsjóða og framlag ríkisins verði greitt í fyrsta skipti í október 2013 og verði þá 0,13% af gjaldstofni tryggingagjalds miðað við hálft árið 2012, þ.e. frá 1. júlí 2012 þegar lögin taka gildi, verði frumvarp þetta að lögum.

Hæstv. forseti. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þjónusta starfsendurhæfingarsjóða felist að mestu leyti í því að hafa umsjón með þjónustu ráðgjafa, gera sérstakar einstaklingsbundnar áætlanir um atvinnutengda starfsendurhæfingu og að hún byggist á og fjármagni þau úrræði sem einstaklingar í atvinnutengdri starfsendurhæfingu þurfa á að halda hverju sinni. Áhersla er lögð á að ekki er gert ráð fyrir að starfsendurhæfingarsjóðir annist sjálfir framkvæmd úrræða heldur geri þess í stað þjónustusamninga við aðila sem bjóða upp á slík úrræði. Að auki er gert ráð fyrir að starfsendurhæfingarsjóðir veiti atvinnurekendum og stjórnendum fræðslu og stuðning í því skyni að stuðla að endurkomu fólks til starfa eða auka möguleika þess til þátttöku í atvinnulífinu þrátt fyrir skerta starfsgetu vegna heilsubrests í kjölfar veikinda eða vegna slysa. Þá er gert ráð fyrir að starfsendurhæfingarsjóðir stuðli að rannsóknum, þróun og uppbyggingu á atvinnutengdri starfsendurhæfingu.

Gert er ráð fyrir að skilyrði fyrir þjónustu starfsendurhæfingarsjóðs verði að einstaklingur búi við heilsubrest sem hindri fulla þátttöku hans á vinnumarkaði og að hann stefni að endurkomu á vinnumarkað eða að aukinni þátttöku á vinnumarkaði svo fljótt sem verða megi. Hins vegar er það skilyrði að viðkomandi einstaklingur hafi þörf fyrir þjónustuna, hún sé til þess fallin að auðvelda honum að fara aftur til vinnu og líkleg til árangurs á þeim tíma sem hún er veitt. Enn fremur verði gerð sú krafa að viðkomandi einstaklingur hafi vilja og getu til að taka markvissan þátt í atvinnutengdri starfsendurhæfingu og fylgi þeirri áætlun sem þar er sett fram.

Í frumvarpinu er mælt fyrir um rekstrarform starfsendurhæfingarsjóða. Gert er ráð fyrir að starfsendurhæfingarsjóðir starfi sem sjálfseignarstofnanir sem ekki stunda atvinnurekstur enda er litið svo á að starfsendurhæfingarsjóðirnir séu ekki reknir í hagnaðarskyni. Að baki hverjum starfsendurhæfingarsjóði verði að lágmarki 10 þús. launamenn og/eða þeir sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi. Loks er miðað við að velferðarráðherra veiti hverjum sjóði viðurkenningu að því gefnu að samþykktir þeirra og innkaupastefna séu í samræmi við ákvæði frumvarpsins og að gerður hafi verið samningur við velferðarráðherra um þjónustu við einstaklinga sem standa utan vinnumarkaðar.

Loks er í frumvarpinu fjallað um eftirlit með starfsendurhæfingarsjóðum. Samkvæmt því skal velferðarráðherra hafa eftirlit með starfseminni og að hún sé í samræmi við ákvæði frumvarpsins, samþykktir starfsendurhæfingarsjóða og samninga við velferðarráðherra um þjónustu við einstaklinga sem standa utan vinnumarkaðar. Uppfylli starfsemi starfsendurhæfingarsjóðs ekki sett skilyrði eða starfsemi hans reynist að öðru leyti óeðlileg, óheilbrigð eða ótraust skal ráðherra beina tilmælum um úrbætur til sjóðsins. Verði starfsendurhæfingarsjóður ekki við þeim innan hæfilegs frests skal ráðherra afturkalla viðurkenningu starfsendurhæfingarsjóðsins. Sé um að ræða ásetning eða stórfellt gáleysi er þó gert ráð fyrir að ráðherra geti afturkallað viðurkenningu starfsendurhæfingarsjóðs án þess að veita honum undanfarandi frest til úrbóta.

Sé viðurkenning starfsendurhæfingarsjóðs afturkölluð skal hann tekinn til slita. Hið sama á við ef sá sem er bær til að taka ákvörðun um slit starfsendurhæfingarsjóðs samkvæmt samþykktum tilkynnir um slíka ákvörðun til ráðherra. Í þeim tilfellum sem starfsendurhæfingarsjóður er tekinn til slita er lagt til að ráðherra skipi skilanefnd sem tekur við störfum stjórnar og framkvæmdastjóra sjóðsins. Um leið tilnefni ráðherra annan starfsendurhæfingarsjóð sem taki við tryggingavernd gagnvart þeim sem tryggðir voru hjá sjóðnum við upphaf slitameðferðar hans. Sé sú leið ekki fær, t.d. vegna þess að enginn annar starfsendurhæfingarsjóður er starfandi, er lagt til að ráðherra, í samráði við aðila vinnumarkaðarins og Landssamtök lífeyrissjóða, verði falið að leita annarra leiða til að tryggja áframhaldandi þjónustu eftir því sem kostur er.

Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið hefur þetta frumvarp að geyma mikilvæg nýmæli að því er varðar atvinnutengda starfsendurhæfingu og þjónustu við einstaklinga sem þurfa aðstoð til að verða virkari á vinnumarkaði. Ég tel að atvinnutengd starfsendurhæfing sé mikilvægur hluti af heildstæðu kerfi endurhæfingar og að brýnt sé að setja lagaramma um hana. Í mínum huga er afar mikilvægt að Alþingi afgreiði frumvarp þetta fyrir lok þingsins ef mögulegt er.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar til umfjöllunar.