140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

atvinnutengd starfsendurhæfing og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða.

735. mál
[15:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það sýnir einmitt hvernig íslenska velferðarkerfið er hannað að lögin um sjúkrasjóði voru sett að morgni sunnudags, minnir mig, í einhverjum velferðarpakka og þá átti bara að borga 1% af launum allra landsmanna inn í sjúkrasjóð og ekki orð um það meir. Þessir sjúkrasjóðir eiga að gera eitthvað, sjúkra-eitthvað. Það er engin lagasetning til um sjúkrasjóðina, ekki eins og um lífeyrissjóðina, það vantar illilega hlutverk fyrir þessa sjúkrasjóði. (Gripið fram í.) Fólk fær samkvæmt kjarasamningi, t.d. verslunarmenn full laun í fjóra mánuði, aðrir fá tvær vikur, og þetta þyrfti að samræma, að kjarasamningar tækju eins á því. Eftir tvær vikur, sem í mínum huga ætti að vera, ættu sjúkrasjóðirnir að taka við, borga ákveðið hlutfall af launum og stuðla auk þess að endurhæfingu hjá þeim sem hægt er að endurhæfa. Ég tel að sjúkrasjóðirnir ættu að hafa þetta hlutverk í fimm ár, að fólk ætti að vera fimm ár í endurhæfingu áður en öll von er gefin upp og menn úrskurðaðir öryrkjar.

Auðvitað lenda sumir í þannig slysum eða þannig veikindum eða fæðast þannig að þeir eru útilokaðir frá vinnumarkaði og eru öryrkjar frá byrjun, en það eru miklu færri en eru í dag. Nú eru 14–15 þús. manns öryrkjar. Að mínu mati ættu sennilega 80% af þeim að vera í endurhæfingu. Það á að gefa þessu fólki von. Það er afskaplega erfitt hlutskipti að verða 75% öryrki. Ég held að þetta frumvarp geti gefið þessu fólki von um að það endurhæfist og geti farið að vinna. Ég hef ekki enn þá hitt öryrkja sem ekki vill verða virkur á vinnumarkaði.