140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

atvinnutengd starfsendurhæfing og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða.

735. mál
[15:10]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Stærðartakmörkunin var fyrst og fremst kannski hugsuð til þess að þetta væri nógu öflug stofnun, hún getur að sjálfsögðu verið og á að vera dreifð út um allt land.

Það þarf líka að fylgja því vel eftir, þegar við erum að tala um hver veitir þjónustuna — það geta verið sjálfstæðar stofnanir eins og starfsendurhæfingarnar úti á landi eru nú þegar en það getur líka verið að við þurfum að tryggja að hægt sé að veita það í húsnæði opinberra heilbrigðisstofnana úti á landi o.s.frv. þannig að kerfið keyri vel saman. Fyrir því er mikill skilningur.

VIRK hefur þróast mjög vel, þar er reynslan orðin hvað mest. Það er mikill skilningur fyrir því að við vitum hvað er hvers hlutverk, það er einmitt sérstaklega tekið fram í lögunum að við viljum opna fyrir það að þeir sem ekki hafa verið tryggðir beinlínis með því að hafa verið á vinnumarkaði eigi líka rétt á þessari þjónustu ef þeir stefna inn á vinnumarkaðinn í framhaldinu.

Þetta jafnræði, sem hv. þm. Jónína Rós Guðmundsdóttir nefnir, skiptir mjög miklu máli. Ég held að menn verði að varðveita það eins og hægt er, bæði jafnræði gagnvart einstaklingum og gagnvart landsvæðum, að það komi skýrt fram í þeirri löggjöf sem hér verður vonandi samþykkt.