140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

atvinnutengd starfsendurhæfing og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða.

735. mál
[15:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um atvinnutengda starfsendurhæfingu. Í mínum huga er það eitt af fyrstu skrefunum á langri vegferð. Það þýðir ekkert að breyta endurhæfingunni ef við breytum ekki bótakerfinu um leið. Það þarf að breyta bótakerfinu allverulega. Ég skora á hv. þm. Jónínu Rós Guðmundsdóttur, sem er varaformaður velferðarnefndar, að ræða það í nefndinni að taka t.d. fyrir sjúkrasjóðina. Hvert er hlutverk sjúkrasjóða? Hvað eiga þeir að gera? Þarf að setja um þá lög? Hvernig á velferðarkerfið að vera hannað að þessu leyti? Það hefur nefnilega ekki verið hannað enn þá, frú forseti, þó að dælt sé í það gífurlegum fjármunum. Eins og ég gat um hér áðan í andsvari eru sett í þá 1% af launum allra landsmanna, u.þ.b. 7 milljarðar í sjúkrasjóðina.

Það þarf að gera meira. Í mínum huga ættu svona starfstengd réttindi, þ.e. uppsagnarfrestir og hvað menn halda launum lengi, að vara kannski í tvær til fjórar vikur, þyrfti helst að vera staðlað. Nú er það þannig hjá verslunarmönnum að það er í fjóra mánuði sem menn fá að halda launum. Það er spurning til hvers sjúkrasjóðir verslunarmanna eru, því það eru mjög fáir sem eru veikir mikið lengur, tiltölulega fáir.

Í mínum huga ættu sjúkrasjóðirnir að taka yfir hlutverk starfsendurhæfingar, þ.e. fjármögnunar, þ.e. fjármögnun tekjumissisins sem menn verða fyrir, því að lífeyrissjóðir, sjúkrasjóðir og almannatryggingar eru að meginhluta ætlaðir til að bæta mönnum upp tekjumissi. Menn fá lífeyri. Hjá lífeyrissjóðunum er það háð tekjum eins og kunnugt er, en hjá almannatryggingum er það óháð tekjum en háð búsetu í landinu. Ég mundi vilja sjá sjúkrasjóðina fá stóraukið iðgjald, jafnvel upp í 3–4%, það þyrfti að reikna, en í staðinn taki þeir yfir örorkubyrði lífeyrissjóðanna hvað varðar endurhæfingu, þ.e. þann tíma sem ákveðin von er til þess að hægt sé að virkja manninn á vinnumarkaði.

Þeir sem eru 100% öryrkjar, sem eru mjög fáir; þeir sem eru algjörlega óvinnufærir, geta ekki tengst vinnumarkaði aftur; þeir sem eru fatlaðir og verða aldrei á vinnumarkaði, kannski 3% af þjóðinni — þeir færu þá beint fram hjá þessu kerfi inn í örorku. Þeir sem slasast mjög alvarlega, verða mjög alvarlega veikir, þannig að útséð er um að þeir vinni aftur, þ.e. ef vinnugetan er horfin, fari þá beint yfir í lífeyrissjóðina. En hinir sem hafa einhverja von um vinnugetu séu hjá sjúkrasjóðunum. Sjúkrasjóðirnir greiði þeim laun í hlutfalli við vinnutap, þ.e. ef maður sem er 60% öryrki eða óvinnufær megi þá hafa 40% af launum annars staðar og fái svo 60% af fullum bótum frá lífeyrissjóði og frá Tryggingastofnun. Annar sem er 20% öryrki eða óvinnufær, sem er því miður töluvert algengt — það fólk fær ekkert í dag, þeir sem eru 20% öryrkjar fá ekki neitt neins staðar. Þeir eru að pína sig áfram þar til þeir verða 100% öryrkjar, þá allt í einu eru þeir búnir að uppfylla skilyrðin. Þetta fólk, margt er að glíma við þunglyndi og slíka sjúkdóma, getur hugsanlega unnið 80% bara með glans, en þarf aðstoð við 20%. Mér finnst að hv. nefnd, velferðarnefnd, sem fær þetta til umfjöllunar, ætti að ræða þetta.

Ég mundi vilja að sett yrðu lög um sjúkrasjóðina sem tækju yfir þennan þátt, fengju aukið iðgjald jafnvel eins og ég gat um, 3%, eins og þarf og iðgjaldið í lífeyrissjóðina yrði lækkað á móti, því að þá þurfa þeir minna. Ég hugsa að allir muni græða á þessu og alveg sérstaklega öryrkjarnir eða þeir sem eru í þessum hópi. Ég hugsa að þetta yrði bara jákvætt.

Svo þurfa menn endilega að breyta þessu ákvæði um 75% örorku. Það er ómögulegt, þetta er eldgömul leið. Ég er búinn að kanna það, þetta var sett upp 1930 þegar örorkulífeyrir var svo lágur að það tók því ekki að skipta honum. Þá var bara sagt: Annaðhvort ertu öryrki eða ekki öryrki. 75%, það fara allir í þann hóp, þeir sem ekki ná því fara í annan hóp. Það eru bara allt önnur sjónarmið í dag. Við þurfum að fara að taka upp stighækkandi örorku og það er þá næsta hlutverk velferðarnefndar, því að ég sé löggjafarvaldið alltaf hjá Alþingi en ekki hjá ráðuneytunum. Það væri ágætt hjá velferðarnefnd að hún tæki umræðu um það að breyta þessum mörkum. Það eru reyndar nefndir starfandi á vegum ráðuneytanna um þetta mál, um samspil almannatrygginga og lífeyrissjóða, og fleiri nefndir sem eru einmitt að fjalla um þetta.

Ég vildi gjarnan að hv. velferðarnefnd tæki þetta, því að það frumvarp sem við ræðum hér er bara byrjunin. En það er mjög góð byrjun. Ég óska öryrkjum þessa lands til hamingju og vona að þeir verði miklu færri sem verða öryrkjar og það verði þá miklu fleiri sem hafi skerta vinnugetu og séu metnir sem slíkir, 20% skerðing eða 60% skerðing eða hvað það nú er, og megi þá vera á vinnumarkaði fyrir restina, bara án tekjutenginga, maður sem er 60% óvinnufær megi þá hafa 40% af fullum tekjum fyrir starf án þess að það skerðist neitt. Þetta held ég að yrði miklu heilbrigðara kerfi og ég vildi gjarnan að menn tækju þetta til umhugsunar, vegna þess að þessi endinn hefur lítið verið ræddur, þessi endi velferðarkerfisins sem eru fatlaðir og öryrkjar.